Færsluflokkur: Bloggar
9.2.2008 | 13:56
Life goes on!
Hæ elskurnar, lífið er að detta í þokkalegan hversdagsstíl sem er frekar gott. Ég fór í speglun síðasta fimmtudag og viti menn, "gúlarnir" mínir litu bara þokkalega út og ekki þurfti að gera við (drepa) neinar æðar í þetta sinn. Þegar ég fór í speglun í byrjun janúar var gert við 3 æðar (drepnar/lokað fyrir þær) og foreldrahræin mín voru svolítið stressuð um að það myndi valda það miklum þrýstingi á æðarnar sem áttu að taka við sem yrði til þess að þær myndu rofna og mér færi að blæða aftur, en (Thank God!) það gerðist ekki. Pjúff, hvað það var mikill léttir fyrir mömmu og pabba að vita að þetta liti skár út í vélindanu, og ef ekkert kemur upp á þarf ég ekki að fara í speglun fyrr en eftir ca.4 mánuði. Var búinn að skrifa svaka færslu en restin datt út og ég nenni ekki að skrifa það aftur - skelli því inn á morgun.
Með letikveðju,
Benjamín Nökkvi Letihaugur
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
21.1.2008 | 15:29
Mamma skrifar
Hæ allir, ég ákvað að skella niður nokkrum línum um prinsinn okkar og ákvað að gera það bara í minni eigin persónu - engin sérstök ástæða, þurfti það bara. Benjómínó er hinn sprækasti og höfum við haldið okkur heima frá því á Þorlák - engar óvæntar blæðingar (7,9,13) - og er hann allur að braggast. Við höfum ansi oft verið spurð, eftir þessar blæðingar, hvort hann sé enn slappur eftir þessar síðustu veikindahrinu - okkur þykir vænt um þessa umhyggju, en staðreyndin er sú að hetjan okkar þarf að vera gjörsamlega útslegin til að hægt sé að sjá slappleikamerki á honum. Þegar 3 og síðasta blæðingin átti sér stað brunaði Bjössi (pabbinn, sko!) með hann upp á spítala (því mamman var svo bjartsýn að vera í vinnunni, þar sem átti að útskrifa prinsinn þennan sama dag og urðu því vaktaskipti - pabbinn tók við og mamman smellti sér í vinnugallan og í vinnuna) þar sem það sýndi sig að það var byrjað að blæða aftur. Þegar ég svo kom uppeftir, eftir undarlega dag lífs míns (fór af spítalanum í sálfræðifötum, beint í 4 viðtöl, skrapp frá til að fara í krabbameinsskoðun, skellti mér upp á spító í millitíðinni til að hitta eldri börnin mín sem voru að horfa á Audda og Sveppa uppi á leiksktofunni, fór svo að taka við styrk vegna rannsóknarinnar minnar í sama húsi og ég hafði farið í krabbaskoðun, sá svo "missed call" þegar ég var á leið aftur í vinnuna (Bjössi að hringja og segja mér að þeir feðgar væru komnir aftur upp á spító), ég varð að fara og klára síðustu tvö viðtölin mín og brunaði svo uppeftir. Þar sat Benjamíninn, fölur sem nár (92 í hemoglóbíni), búið að setja upp nálar í báða handleggi, og söng hástöfum "Bubbi byggir, getum við lagað það!". Ef hann er ekki svalur þá er það enginn (Benjó sko, ekki Bubbi).
Ég veit að þetta er endurtekning á fyrri færslu en því sem ég sleppti þá er hversu hrikaleg áhrif þessar blæðingar hafa haft á sálarlíf okkar Bjössa - þessi blæðingarpakki átti loks að vera búinn, loksins vorum við hætt að missa slag úr hjartanu í hvert sinn sem Benjamín hóstaði í svefni og hlaupa eins og spretthlauparar til að athuga hvort honum blæddi nokkuð. Sá ótti skall á okkur á fullum krafti á ný við þessar nýju blæðingar. Okkur var svo létt þegar aðfangadagskvöld var búið - ekki vegna þess að það hafi verið leiðinlegt, þvert á móti áttum við yndislegt aðfangadagskvöld - við vorum bara svo glöð yfir því að við fengum að eiga það öll saman með öllum þeim dásamlega hamagangi sem fylgir þegar 3 grísir eru að springa úr spenningi - YNDISLEGT AÐ FÁ AÐ NJÓTA ÞESS! Ástæðan fyrir þessari færslu minni er sú að vekja athygli á hversu brothættir foreldrar langveikra barna geta verið - kvíðinn og óttinn fyrir að eitthvað alvarlegt komi fyrir barnið þitt er raunverulegur, þrátt fyrir að langt sé um liðið frá því að meðhöndlun upprunalegu veikindanna lauk. Mikilvægt er að reyna að hlúa vel að hvort öðru, tala saman, og umfram allt að fá að upplifa að það sé alveg eðlilegt að maður sé ekki "búinn að ná sér", heldur sé hversdagleikinn með langveikt barn oft fjandi erfiður!
Kærar kveðjur,
Eygló
ps. set inn nokkrar myndir af nýjustu fjölskyldumeðlimunum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
24.12.2007 | 15:38
Með ósk um gleðileg jól og farsæld á komandi ári ykkur öllum til handa
Kæru vinir og vandamenn, okkar bestu jólaóskir um hamingju og heilbrigði á nýju ári. Við fengum að fara heim í gær, frábært að sofa í mínu (mömmu og pabba) rúmi, mmmmmm. Var orðinn rosalega fölur seinnipartinn í gær og þau gömlu alveg að fara á límingunum, drógu reglulega úr hnappnum mínum en til allrar hamingju kom ekkert blóð. Ég var farinn að segja við mömmu í hvert sinn sem hún dró "hvað kemur mamma, blóð?", þegar mamma sagði "nei" þá sagði ég "gott, ég nenni ekki að fara aftur á spítlann, þá get ég sko ekkert opnað pakkana mína og þá opna Hrafnhildur og Nikulás þá bara". Mamma og pabbi sváfu þokkalega í nótt, en eftir að þau komu uppí þá rumskaði ég, bað um mjólk (sem ég fékk), þambaði hana, lagðist á koddan og sagði "þetta var góður dagur" - bara krúttlegt fannst mömmu og pabba. Nú ætlum við að hætta þessu í bili þar sem líða fer að matarundirbúning.
Með alheimskærleikskveðju,
Benjamín Nökkvi Með Þakklæti í Hjarta yfir að fá að Koma Heim um Jólin
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
20.12.2007 | 16:45
Þið hljótið að vera að grínast!!
Nú er þetta sko hætt að vera fyndið - ekki það að það hafi nokkurn tíma verið það en mamma tekur oft svona til orða! Mamma skellti sér í vinnuna í gær (beint af barnaspítalanum) og pabbi var hjá mér og ég var útskrifaður um hádegið. Ég varð nú eitthvað fölur og fár á leiðinni heim í bílnum, svitnaði allur, en pabba datt helst í hug að ég hefði orðið bílveikur því ekki datt neinum í hug að það myndi blæða hjá mér aftur. Amma kom svo að passa mig á meðan pabbi fór með Teklu og Nikulás upp á spító til að hitta Audda og Sveppa - en þeir voru að skemmta á leikstofunni - mamma kom svo við að hitta okkur en hún var í smá pásu úr vinnunni þar sem hún átti að taka á móti rannsóknarstyrk kl.15, pabbi brunaði svo heim til mín eftir skemmtunina og þá var amma að skeina mér og það var blóð í kúknum mínum. Pabbi dró þá úr hnappnum mínum og enn og aftur kom blóð - við brunuðum uppeftir og vorum komnir kl. hálffjögur - semsagt innan við 4 tíma frí frá spító! Mamma kveikti á símanum strax eftir afhendinguna og sá þá að pabbi hafði hringt og ætlaði varla að trúa því að ég væri kominn uppeftir aftur! Pabbi róaði hana þó og mamma fór aftur í vinnuna til að klára síðustu viðtöl dagsins. Þegar mamma kom upp á spítala var nýbúið að blæða ansi hressilega, en pabbi og vinkonuhjúkkan mín höfðu dregið um 50 ml. af blóði út hnappnum mínum og svo hafði ég kúkað miklum blóðkúk. Ég hafði lækkað ansi mikið í hemóglóbíni eða úr 119 í 92 þannig að ég hafði misst töluvert blóð enda var ég svo hvítur þegar mamma kom að henni brá bara! Ég var nú samt reytandi af mér brandarana og söng með Bubba byggir laginu og var í frekar mikið stuði sko, en ekki hvað!! Ég var ekki alveg jafn kátur þegar þurfti að setja upp aðra nál fyrir blóðið mitt, en það hafði ekki gengið neitt sérstaklega vel að setja upp fyrri nálina (fyrir lyfið mitt) og er ég því orðinn allur útstunginn. Viðar læknir kom og auðvitað tókst honum (eins og fyrri daginn) að skella í mig nál með léttum leik (hann svitnaði bara smá). Ég fékk því blóð í annan handlegginn og Sandostatin í hinn og gat því mest lítið notað hendurnar mínar. Lúther kom að sjálfsögðu að kíkja á mig og var ákveðið að spegla mig strax í morgun nema ef eitthvað færi að blæða aftur þá ætti að gera það strax. Ég hélt að sjálfsögðu kúlinu og blæddi ekki meir um nóttina, en þegar ég vaknaði í morgun var nálin í öðrum handleggnum (þar sem lyfið mitt var að renna) orðin eitthvað skrítin og handleggurinn minn og hendin frekar bólgin og stíf/ur, þannig að það varð að færa lyfið yfir í hinn handlegginna og svo var bara sett upp ný nál á meðan ég var í svæfingunni. Ég leyfði mér nú að sofa vel eftir aðgerðina, en Lúther lokaði einhverjum æðum aftur, og þegar ég loks vaknaði um 14 var ég orðinn glorsoltinnn (enda verið fastandi síðan um kl.20 í gær) og fékk mér tvær samlokur og mjólkurglas - úff, hvað það var gott að fá eitthvað í bumbuna. Við erum að hugsa um að toppa veru okkar á Barnaspítalanum og fara ekki heim fyrr en á Þorláksmessu (fórum heim 22 des í fyrra), en hey, jólin koma sko fyrir því og við fáum vonandi að vera bara öll saman heima, borða góðan mat (sem verður með einfaldara sniði í ár), ooooog opna pakkana (júúúhúú, ég hlakka sko til!!).
Með Allt er þegar þrennt er kveðju,
Benjamín Nökkvi Blóðbankaþegi
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
17.12.2007 | 23:37
Jólin eru að koma.....
Hæ hó krúttkökur! Ætla aðeins að láta vita af mér, en ég þurfti að fara aftur upp á spító í gærkvöldi. Stundum getur verið gott að vera með kvíða þegar ástandið er óöruggt, því kvíðinn hennar mömmu fyrir að mér myndi fara að blæða aftur kom kannski í veg fyrir að ég kastaði upp blóði aftur og missti eins mikið blóð og um daginn. Mamma og pabbi voru búin að koma sér fyrir í sófanum með ís og alles, og ætluðu að kíkja á þátt í sjónvarpinu - grísirnir 3 sofnaðir - en mamma ákvað nú að draga úr sondunni minni til að tékka hvort nokkuð væri að blæða (eitthvað sem hún hefur gert reglulega þegar blætt hefur hjá mér). Með því að setja slöngu í hnappinn minn á maganum er hægt að athuga hvort eitthvað sé í gangi í bumbunni minni, og í gærkvöldi kom semsagt aftur blóð. Bömmer, bömmer, en ekki var nú hringt á sjúkrabíl núna heldur hringdu mamma og pabbi í ömmu sem kom og passaði krakkana og við brunuðum niður á spító. Margir snillingar tóku á móti mér, sett var upp nál, sandostatin blandað (lyfið sem stoppar blæðingar), hringt í Lúther og plan sett upp ef skyndiblæðing skyldi fara af stað - gjörgæsla, akút speglun, og blóðgjöf. Sem betur fór varð engin skyndiblæðing (7,9,13) og ég var sko í stuði til kl.04 í nótt, át 2 brauðsneiðar, svo kornfleks og mjólk, nammi, namm. Síðan fékk ég hressilega í magann og kúkaði ansi miklum blóðkúk en sofnaði loksins en vaknaði frekar hress í morgun. Mamma var ekki eins hress, frekar úldin bara! Það var ákveðið að taka blóð úr mér aftur og athuga hvernig blóðgildin mín voru, en í nótt var ég um 100 í hemó og vildu læknarnir mínir gefa mér blóð. Þar sem ég hafði nánast ekkert lækkað frá því í nótt var þó ákveðið að bíða með blóðgjöfina þar til Sandostatinið væri búið að renna inn (einhverntíma á morgun) því annars hefði þurft að setja upp aðra nál hjá mér og það er nú ekki eins og mér finnist neitt sérstaklega gaman að hafa nálar í báðum handleggjum, fyrir utan að það er ekki það auðveldasta í heimi að setja upp nálar í krumpuðu æðarnar mína. Ég er nú samt búinn að vera í dúndurstuði í dag (en ekki hvað!), lagði mig aðeins seinnipartinn og er því enn vakandi (klukkan að verða 00 - miðnætti sko) og sú gamla alveg að leka niður af þreytu. Ég fæ nú vonandi að fara heim á morgun og svo verðum við bara að sjá til hvernig verður með allar speglanir og "bumbuviðgerðir".
Með spítalaaðventukveðju,
Benjamín Nökkvi sem heldur í Desemberhefðir (að vera uppi á Barnaspítala, sko!!)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
12.12.2007 | 11:04
Well oh Well!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
9.12.2007 | 18:31
Reyni aftur!
Ætla að gera aðra tilraun með að setja inn glærur út fyrirlestrinum hennar mömmu. Virðist hafa tekist held ég. Allt ágætt að frétta af mér - hef þurft að fara aðeins í heimsóknir upp á spító, fékk sýkingu í typpalinginn þar sem ég er með svo mikla þrengingar í forhúðinni og kíkti skurðlæknirinn á mig - ætlum að prófa að bera á dúndursterakrem (þó mömmu sé fremur illa við þá tegund krema) og svo var ég settur á sýklalyf. Kvefið er að lagast og ég hef farið á leikskólann alla vikuna. Ætla ekki að skrifa meir í bili þar sem við erum að fara að klára jólaskreytingar á heimilinu.
Með aðventukveðju,
Benjamín Nökkvi súperbolti
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.11.2007 | 15:11
Kominn tími á smá fréttir af mér!
Hæ krúsur, aldeilis kominn tími á smá fréttaskot. Ég er búinn að vera með kvef í rúmar 6 vikur, var orðinn skárri en alltaf að sjúga upp í nefið en svo allt í einu fór ég að verða mjög hás og mamma heyrði að hljóðið í lungunum var ekki alveg eins og það átti að vera. Þar sem við höfum iðulega lent uppi á spító um helgar hringdi mamma uppeftir á föstudag og fékk að koma með mig í hlustun - mikið rétt hjá þeirri gömlu, það var komin þétting í hægra lungað, lítið loftflæði, og töluvert brak og slímhljóð. Það góða var samt það að vinstra lungað var næstum því hreint, en ákveðið var að setja mig á sýklalyf þar sem allar líkur voru á því að hæsið mitt væri einhver veirusýking sem gæti gert mig viðkvæmari gagnavart einhverjum leiðindarbakteríum sem myndu gera lungun mín enn veikari. Settum pústin mín inn af fullum krafti um helgina til að reyna að losa um slímið í hægra lunganu. Í dag fór ég svo í allskonar rannsóknir upp á spító - hefðbundna blóðprufan mín (sem kom vel út by the way), vigtun (hafði þyngst um 600 gr - júhúúú, mesta þyngdaraukning í manna minnum), blóðþrýstingur, hlustun, súrefnismettun (sem var glæsileg, 98%) - svo fór ég í hjartaómun til að athuga hvernig æðakerfið mitt og hjartað hefði það eftir ýmiskonar stíflur hér áður, lifrarbilunina árið 2004, og hvort lyfin hefðu haft áhrif á hjartað mitt. Niðurstöðurnar úr hjartaómuninni voru bara ágætar miðað við allt sem ég hef gengið í gegnum - hjartað sjálft var í fínu lagi, æðakerfið mitt er pínu krumpað og þar sem ég fékk stíflu einusinni virðist sem bláæðin hafi lokast en æðakerfið okkar er nú frekar magnað þannig að það hafa aðrar minni æðar tekið við og skila blóðinu í hjartað mitt eins og vera ber, þrátt fyrir að fara eftir kræklóttari leiðum en hjá flestum öðrum. Töluverð þrenging er síðan á bláæðinni minni þegar hún kemur að lifrinni minni en líklega tengist það lífrarbilunni(2004) en þrátt fyrir þrenginguna er samt flæði í lifrina og mamma þarf bara að fá aðeins nákvæmari upplýsingar hvað allt þetta þýðir - en niðurstaðan er samt sú sem ég sagði í upphafi, þ.e. þetta er bara frekar gott miðað við aðstæður mínar, þannig að við megum sko alveg gleðjast yfir því!! Síðan fór ég að hitta taugalæknir sem skoðaði mig hátt og lágt - hvort ég gæti hoppað jafnfætis, hvort ég gæti fylgt ljósi með augunum, hvernig viðbrögðin mín voru (reflexarnir), og margt margt fleira. Niðurstaðan var sú að honum fannst ég sko frekar flottur sko! Miðað við gæja sem ekki hefur labbað nema í eitt og hálft ár hef ég nú náð ansi langt, þó svo að færni mín á sumum sviðum sé að sjálfsögðu ekki jafn góð og hjá jafnöldrum mínum. Læknirinn ætlar að senda beiðni um að það verði lagt fyrir mig sálfræðilegt þroskamat sem og hreyfiþroskamat - bara hið besta mál, því þá er hægt að styrkja þá þætti sem þarf að styrkja og leyfa mér að halda áfram að þroskast eins og best er á kosið. Bið að heilsa í bili.
Með dúndurkveðju,
Benjamín Nökkvi Miracleboy
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.11.2007 | 15:44
Mamma verður að fá að blogga smá!
Hæ öll, þar sem ég (mamma Benjamíns) nenni ekki að vera með mína eigin bloggsíðu ákvað ég að taka mér bessaleyfi að blogga hér um mögnuðu Indlandsför mína. Þeir sem þekkja mig ekki vita ekki að mig hefur dreymt um að fara til Indlands í svona 20 ár, hef alltaf heillast af Indlandi og öllu sem viðkemur því landi (held meira að segja að ég hafi verið Indversk prinsessa í einhverju af fyrri lífum mínum!). Anyhow, þá var lagt af stað snemma morguns þann 30.10, en leiðin lá fyrst til London þar sem ég beið í 9 klukkutíma eftir að komast í flugið til fyrirheitna landsins. Ég var búin að undirbúa biðina vel, ætlaði að setjast í flott buisnesslounge og hanga á netinu, vinna smá og hafa það náðugt (við eigum einhver svona kort til að fara í yfir 500 lounge í heiminum - ógeðslega kúl, I know). Mín kemur á Heathrow og hlakkar bara til að njóta lífsins í "lounginu", fá mér öllara kannski, eitthvað snarl og svona (allt ókeypis - maður verður náttúrulega að nýta sér það!), ég trítla því í loungið þegar ég lendi um hádegið og ætla sko að skella mér úr skónum og njóta þess að slappa af. Mjög breskar konur sátu við afgreiðsluna (lesist fremur þykkar miðaldra konur með þyyyyykt meik, bláan augnskugga og sterkbleikan varalit - engir fordómar, bara fyndið) og þær voru svo sannarlega hinar indælustu. Það breytti samt ekki því að reglur eru í flestum loungum að maður má bara dvelja þar í hámark 3 klukkutíma fyrir brottför, en það voru 9 tímar í mitt flug!! Ég gat ekki einusinni tékkað mig inn fyrr en kl.17, en þessar ljúfu konur voru tilbúnar að leyfa mér að koma um leið og ég væri búin að tékka mig inn og fá þá að sitja í lounginu í 4 tíma í stað þriggja - Grand konur þetta, og ég meina það!! Eftir að hafa labbað 717 hringi um verslunarsvæðið á Heathrow, borðað á TGI Fridays, keypt smá eðalsúkkulaði, snyrtivörur og aðrar nauðsynjar, var klukkan loks orðin 17.00 og hægt var að innrita sig. Júhhhú, nú var sko hægt að smella sér í loungið og njóta lífsins þar! Eftir að hafa hangið þar í 1 og hálfan tíma (var nú ekkert sérlega smart eftir allt saman, he,he) ákvað mamma að labba út að brottfararhliðinu og hanga bara þar. Loks var kallað út í vél og ferðin til Indlands var hin ljúfasta (þrátt fyrir að taka 9 tíma), en ég mæli svo sannarlega með að ferðast með Jet Airways, yndisleg þjónusta, góður matur og hægt að horfa á 150 klst. efni á skjá sem er fastur í sætinu fyrir framan mann (semsagt allir hafa sinn eigin sjónvarpsskjá og fjarstýringu og geta valið efni að vild - bæði frá Hollywood og Bollywood!). Lenti svo í Mumbai (Bombay) um hádegið, bílstjórinn sem átti að sækja mig kom aldrei en indælir Indverjar hjálpuðu mér að finna leigubíl sem keyrði mig upp á hótelið, en það var 2 tíma ferð í geggjaðri indverskri umferðarmenningu sem einkennist af því að búa til að minnsta kosti 4 aukaakreinar og liggja á flautunni til að komast leiðar sinnar. Í huga mínum syngur ennþá "diiiid, diiid, diiid" (lesist "hér kem ég, hér kem ég, hér kem ég........) - held þetta sé ákveðið forvarnarkerfi sem virðist virka ágætlega þar sem ég sá enga árekstra sem ég tel að sé kraftaverk (eða virkni flautuforvarna) miðað við umferðarkaosið sem ríkti allsstaðar. Ég komst semsagt klakklaust á hótelið (hótel Apollo - 3 stjörnur og átti að vera nokkuð gott, en erfitt var að finna hótel vegna þess hversu fjölmennt var á ráðstefnunni sem ég var að sækja - efnið var Pediatric Oncology). Var gjörsamlega búin eftir sólarhrings ferðalag og svaf sæmilega þessa fyrstu nótt. Nú ætla ég ekki að tíunda meira um þessa ferð (það verður gert í framtíðarbók minni sem mun líklega bera heitið "Klaufska konan" eða "Fröken Hrakfallabálkur" - en ég hef áttað mig á að ég á efni í heila bók um hluti sem koma fyrir mig og eru orðnir eðlilegur hlutur af mínu lífi, en svo virðist sem aðrir séu ekki að lenda í svipuðum hlutum og þegar ég áttaði mig á því var það eilítið undrunarefni en ég gat svosem sagt mér það sjálf að það eru ekki allir sem brjóta t.d. á sér fótinn við a klifra upp í skápa til að þrífa eyrnalokkana sína um miðja nótt og fara fótbrotinn í flug og smella sér svo beint á slysó í viðkomandi landi!). Það eina sem mig langaði að deila sérstaklega með ykkur í þessari færslu var enn einn atburðurinn sem að sjálfsögðu kom bara fyrir mig í þessari ráðstefnuferð, allavega hef ég ekki enn heyrt um neinn sem lenti í því sama. Semsagt var ég á ráðstefnunni á fimmtudeginum og þegar deginum var lokið þar fórum við samstarfsaðili minn upp á hótel til mín (þar sem ég var sko með loftræstingu og alles en hann ekki) og héldum áfram að vinna að rannsókninni okkar. Ég var enn eftir mig eftir ferðalagið, ráðstefnudaginn, hitann og rakann, þannig að ég afþakkaði að fara út að borða og fékk mér sko "roomservice" og gæddi mér á indælum indverskum kjúklingarétti, uppi í rúminu mínu og mér sjónvarpið á og naut þess að slaka á. Sofnaði svo á mínu græna um 23 leytið og svaf sæmilega til 04 en vaknaði þá og þurfti nú bara að smella mér á salernið og allt í góðu með það. Þegar ég kem tilbaka sé ég að í rúminu mínu hreyfist eitthvað og átta ég mig á að hér er um feitan, hvítan (lifandi) maðk að ræða (svona eins og maður hefur séð að lifir í hræum, t.d. í þáttum eins og CSI), oj, oj, oj, hugsa ég, næ mér í pappír og sturta kvikindinu niður í klósettið, tek upp lakið og teppið (engar sængur sko!) og hristi hressilega ef það skyldi nokkuð leynast fleiri þarna í teppinu. Neibb, engir fleiri en ég var með nettan ógeðshroll sem ég reyndi að hrista af mér en ákvað nú að reyna bara að sofna aftur þar sem ég var með veggspjaldasýningu daginn eftir og þurfti að vakna snemma til að setja upp veggspjaldið og ýmislegt annað. Þegar ég er við það að leggjast sé ég allt í einu að jaðarinn á koddanum hreyfist, við að kíkja betur sé ég svona 10-20 hvíta maðka í viðbót, þá verður mér litið á koddan og þar kúra svona 50 fleiri, ég fer að fá netta panikktilfinningu, tek upp kodda nr. 1 (var sko með 2 kodda á þessu lúxúshóteli!) og þar leynast eitthvað um 50-60 kvikindi í viðbót, tek upp kodda nr.2 og þar er eitthvað svipað - munið að þeir liðast um, feitir og pattaralegir! Ég fríkaðu út að innan, fór með hendurnar í gegnum hárið (þar sem ég hafði greinilega legið á þessum viðbjóði), fann ekkert þar, hringdi niður í lobbý, tók upp öll fötin mín úr töskunni til a athuga hvort eitthvað leyndist þar og pakkaði svo öllu draslinu saman. Lét sækja farangurinn og sagðist vera farin! Hótelstjórinn reddaði mér yfir nóttina á "systrahóteli" sama hótelsins og sagði mér svo vinalega að ég þyrfti ekkert að taka með mér farangurinn þar sem hann myndi redda mér nýju herbergi strax næsta dag (á Apollo). Yeah right!! Ég horfði á hann eins og hann væri klikkaður og sagði hátt og skýrt "I am not coming back"!!! Á endanum var mér reddað inn á eitt dýrasta hótel í Mumbai (Taj Towers) þar sem nóttin kostaði litlar 35.000 kr. og var ég neydd til að búa þar í tvær nætur (fyrir utan það að þurfa að punga út þessum blóðpeningum verð ég nú að viðurkenna að í mér býr Indversk prinsessa sem kunni svo sannarlega að meta þann lúxús sem þetta hótel hafði upp á að bjóða). Síðustu tvær næturnar varð ég þó að finna mér eilítið ódýrara hótel, og þar sem ráðstefnunni var lokið var auðveldara að fá herbergi (sætti mig þó ekki við minna en 4 stjörnur í þetta sinn og taldi mig vera "safe" með það). Fann þetta fína hótel (þrátt fyrir a 4 stjörnu hótel er ekki alveg á sama klassa og hér á Vesturlöndum), en þetta var hið ágætasta herbergi. Þegar ég var búin að koma mér fyrir og var á leið út til að skoða Mumbai, ákvað ég nú að skella tölvunni í öryggisboxið, opnaði fataskápinn þar sem boxið var og hvað er það fyrsta sem ég sé - fuck..... kakkalakki!!!! Eftir 15 ferðir í lobbýið, þar sem starfsfólk hótelsins var farið að halda að ég væri klikkuð kona, ákvað ég að skipta um herbergi og taldi mér og öðrum trú um að ég væri bara í góðum gír með þetta alltsaman. Til að vera fullkomlega hreinskilin þá held ég að ég hafi sofið allt í allt kannski 10 klukkutíma þessar síðustu 4 nætur eftir maðkaævintýrið - þið getið ekki ímyndað ykkur hamingjuna þegar ég var komin upp í flugvél á leið til Heathrow, og alsælan sem helltist yfir mig þegar ég var komin í Leifsstöð var ólýsanleg, þó örlítið minni en sú sem hríslaðist um mig þegar ég lagðist í yndislega rúmið mitt hjá kallinum og krökkunum og engum MÖÐKUM!!!
Með Indlandfarakveðju (og mun svo sannarlega fara aftur)
Eygló Hrakfallabálkur Alheimsins
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
30.10.2007 | 18:14
Tókst ekki að deila glærunum með ykkur, verður bara að hafa það.
Hæ elskurnar mínar, langt síðan síðast og það verður ekki langt í þetta sinn þar sem ritarinn minn situr á Heathrow á leið til Mumbai á Indlandi, og nettengingin er afskaplega takmörkuð. Yepp, heyrðuð rétt, mamman er á leið til Indlands - á alþjóðlega ráðstefnu í tenglsum við krabbamein í börnum! Foreldrar mínir eru svolítið klikkaðir, en ég held að veikindi mín hafi kennt þeim að reyna að láta draumana rætast, ef hægt er, og njóta lífsins eins vel og hægt er. Þannig að þrátt fyrir "innra hrun" hjá þeim gömlu (á að skiljast sem andlegt niðurbrot eftir langa og stranga baráttu - en fyrirlesturinn hennar mömmu fjallaði einmitt um hvað getur átt sér stað eftir að mesti hasarinn, tengdum alvarlegum veikindum, er yfirstaðinn - niðurbrot, þreyta, skömm yfir að líða þannig, osfrv.), þá reyna þau að láta sér (og okkur) líða vel og lifa hér og nú (og hana nú!). Ég er enn kvefaður - búinn að vera það í rúmar 3 vikur og mamma búinn að fara með mig tvær aukaferðir upp á spító þar sem kvíðinn fyrir að nú væri allt farið af stað aftur var að trylla hana (og fleiri). Sigrún hjúkka sagði mömmu að koma með mig aftur í gær þar sem mamma væri að fara og hún þekkir mömmu svo vel að hún vissi að mamma gæti aldrei farið í svona langt ferðalag með risakvíðahnút í maganum. Það var samt ekki tekinn blóðprufa, en síðustu prufur komu vel út eins og ég var búin að láta ykkur vita, en ég var hlustaður og svona, smá hljóð í lungunum mínum en ekkert alvarlegt og Guðmundi Góða og Sigrúnu leist bara ágætlega á mig og sögðu mömmu að þetta væri bara nokkuð eðlilegt að það tæki mig svona lengi að vinna á kvefi, þar sem ónæmiskerfið mitt væri að "æfa" sig að ráða sjálft við svona kvefpestir. Megum heldur ekki gleyma því að frá september fram í mars í fyrra urðu kvefpestir til þess að lungun mín voru rosa slöpp og veik og ég þurfti töluverðar innlagnir og súrefnismeðferð var nánast í hverjum mánuði. Þannig að þetta hljóta að vera framfarir Er mjög lystarmikill þessa dagana en hvert maturinn fer veit ég ekki (jú, í klósettið!), hann fer allavega ekki utan á mig og núna hef ég aftur lést - úr 12,1 kg. í 11,7 á tveim vikum - BAHHHHH, þreytandi þessi lélega þyngdaraukning, en það er líklega hluti af síðbúnum afleiðingum að meltingarfærin mín eru lúin og léleg.
Með bjartsýniskveðjuumfitun,
Benjamín Nökkvi Hinn Grannvaxni
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Tenglar
Gamla síðan mín
www.medferd.com/Benjamin
- Benjamín (gamla síðan) Þarna hef ég bloggað síðan haust 2003
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (25.12.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar