Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007

ÚÚPPS, gleymdum okkur alveg!!!

Halló, halló, halló, megaklúður hér, gleymdum alveg að setja inn fréttir eftir að ég fór í CT-skannið.  Fór semsagt í skannið síðasta þriðjudag, var mættur upp á spító kl.07.30 - átti að setja upp nál til að gefa mér skuggaefni og svo átti ég að fá klóral í rassinn til að ég myndi sofa á meðan myndatakan færi fram.  Fyrir svona litla stubba getur nefnilega verið ansi erfitt að vera grafkyrr í ca. 10 mínútur, en myndatakan tekur um það bil 10 mín.  Það var sko búið að setja deyfiplástra á báðar ristar og í aðra olnbogabótina (æðarnar í hinni olnbogabótinni eru soddan "klaufar", eftir því sem ég segi sjálfur - semsagt lélegar og vonlaust að reyna að setja upp nál þar), en þegar búið var að reyna að stinga nokkrum sinnum á þessa staði og ekkert gekk, ákváðum við að setja deyfiplástra á bæði handarbökin og reyna þar.  Það gekk síðan upp að setja nál í annað handarbakið, ég fékk spelku til að allt myndi nú haldast á sínum stað, og svo fékk ég "svæfingarmeðalið" í rassinn.  Útaf þessu nálarveseni seinkaði öllu svolítið og ekki var ég nú fljótur að sofna af meðalinu, neibb, sofnaði loks svona klukkutíma eftir að ég fékk það og svaf frá því að við fórum af stað niður í skannið og þar til búið var að koma mér fyrir í "rennuna".  Þá ákvað ég að vakna og var bara frekar hress, sko!!  Þar sem ég er megasnillingur með meiru, lá ég nú bara samt grafkyrr á meðan rennan fór með mig fram og tilbaka í hringinn þar sem nokkurs konar "kúlur" snerust svaka hratt - við mamma ímynduðum okkur bara að rennan væri bíll sem væri að keyra með mig fram og tilbaka.  Ég vakti svo bara áfram og skellti mér á leikstofuna og lék mér, var samt pínu "fullur" og gat ekki alveg labbað beint!  Við fengum svo niðurstöðurnar á miðvikudag, en það voru einhverjar breytingar í lungnavefnum (eins og búist var við).  Orsökin fyrir þessum breytingum er ekki á hreinu, en það getur verið vegna höfnunareinkenna (hvort sem þau séu í gangi núna eða hafa verið það áður) eða endurteknar sýkingar í lungum.  Hugmyndin er semsagt núna að ef/þegar ég fer út í 2 ára skoðun, sem er í byrjun júní, þá væri kannski gott að taka vefjasýni úr lungunum mínum til að betur sé hægt að átta sig á þessu lungnaveseni.  Við erum samt frekar afslöppuð yfir þessu því þetta virðist ekkert há mér þegar ég er frískur (lesist, ekki kvefaður!), ég hleyp um (á mínum hraða!), klifra (t.d. upp mömmu og pabba), og ég verð hvorki móður né hlífi mér á nokkurn hátt eða þreyttur, þannig að á meðan staðan er svona ætlum við bara að njóta lífsins án þess að velta okkur upp úr hvort þetta lungnavesen verði að einhverju eða "sleppi" bara með tímanum. 

Með sprettarakveðju,

Benjamín Nökkvi Spretthlaupari


Pjúff, kominn tími á smá fréttir hér, sko!!

Elsku krúttin mín, bara hreinlega dauðskammast mín fyrir "óskrifin" undanfarið.  Hálfur mánuður frá síðustu skrifum og það er nú bara engin leið, sko!  Ég hef það flott og fínt og ég styrkist með hverjum deginum, borða betur, sef vel, metta vel, og er farinn að vera algjör stríðnispúki - BIG TIME!!!! Lífið er ljúft við mig þessa dagana og ég segi stundum við mömmu og pabba "er ég frískur núna?" - mamma heldur að ég sé nú mest að tala um veikindi mín undanfarið (flensuna og lungnavesenið sem hefur verið ansi öflugt af og til síðan í desember), en það er eins og ég sé farinn að muna eftir spítalaferðum mínum undanfarið.   Nefni t.d. undantekningalaust, þegar við förum nálægt LSH, að ekki hafið komið gult ljós á umferðarljósin þegar við fórum upp á bráða eina nóttina í febrúar ("það kom ekki gult ljós, manstu eftir því mamma?") - ótrúlegt, finnst mömmu, hvað ég hef gott minni!  Annars var sú gamla á faraldsfæti enn eina ferðina, fór til Stokkhólms í vinnuferð sem gekk svona líka vel, þannig að nú er hún að skrá sig við Karolinska Institutet. Við höfðum það rosa gott með pabba á meðan, bökuðum "pappínóss" og átum vel og mikið, lékum okkur, fórum í hjólatúr (þar sem krúsubanginn minn hann Brói týndist, sem var hræææææðilegt, og við fundum hann ekki aftur:(  -), og skemmtum okkur svakalega vel.  Annars fór ég í blóðprufu 14 mars og hún var flott! - ég hitti líka góðan lækni sem er flinkur í lungum og það var ákveðið að ég færi í CT-skann á lungum, til að reyna að skilja betur hversvegna það er alltaf "brak" í lungunum mínum og ég fer í það á þriðjudaginn.  Fæ smá meðal til að sofa þar sem ég þarf að liggja alveg grafkyrr í nokkrar mínútur á meðan ég er í skanninu.  Læt ykkur vita af mér eftir það.

 Með kossaknúskveðju,

Benjamín Nökkvi Brakari


Engar fréttir eru góðar fréttir!

Hæ músslur, já, þetta máltæki á allavega við hjá mér þessa dagana.  Ég komst í leikskólann alla þessa viku og það var sko frábært!!!  Kom svo heim eftir leikskóla og fór í bílaleik, get endalaust dundað mér með bílana mína (vil reyndar helst að mamma, pabbi, Teklan mín, Nikulás, amma eða afi, séu líka með - skil ekki hvað þau eru eitthvað löt við þetta!).  Mamma og pabbi hafa oft talað um hvað ég er alltaf glaður og hafa sko spáð í hvernig maður getur verið svona uberglaður alltaf, sérstaklega þegar maður hefur farið í gegnum svona mikið erfitt eins og ég.  Málið er bara það að svona er ég bara!  Það lýsir því kannski best þegar við sitjum við matarborðið og ég byrja syngja t.d. "krummi svaf í klettagjá" og öskra svo hátt yfir borðið (af mikilli innlifun) "ooog allir með!!!!" - bara alveg hreint hrikalega krúttlegt og lýsandi fyrir mig (segir mamma).  Hef litlu við að bæta í dag nema "reynið að njóta lífsins eftir bestu getu - dagurinn í dag kemur aldrei aftur"!!

Með lífiðergottkveðju,

Benjamín Nökkvi Söngvari


Hinn íslenski súpermann!

Benjamín Nökkvi Björnsson
Benjamín Nökkvi Björnsson
Alvöru ofurhetja sem komist hefur í gegnum tvenn beinmergsskipti með hjálp einstakrar ástar á lífinu!
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband