Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2010

"Mamma, ég er búinn að redda þessu með hundinn!!!!"

Jamm, eftir að hafa átt yndislegan sólarhring með dásamlegu fólki á Sumarhátíð Styrktarfélags Krabbameinssjúkra Barna, tilkynnti ég foreldrum mínum að mér fyndist að við ættum að fá okkur hund. Ég hef nú alltaf verið frekar óöruggur gagnvart hundum og verið mjög lukkulegur með kettina okkar tvo, Skotta og Brand, en nú langar mig semsagt í hund. Spurði bæði mömmu, pabba og ömmu Rúnu, sem kom með lausn á þessu - Rósa frænka er að fara fá sér hund og amma sagði að við gætum kannski bara fengið hann lánaðan ef Rósa þyrfti að fara eitthvað - þetta þótti mér góð hugmynd þar til ég fékk aðra enn betri. Á meðan mamma hljóp útúr bílnum í gær að ná í Nikulás úr rútunni sem kom frá Vatnaskógi, þá beið ég nú bara slakur úti í bíl, hringdi í Rósu frænku (mamma hafði skilið símann eftir úti í bíl) og spurði hvort hún vissi hvar maður gæti eiginlega fengið svona hunda Cool. Þegar mamma kom svo aftur með Nikulás með sér sagði ég nú bara: "Mamma, ég er búinn að redda þessu með hundinn - sko, Rósa sagði mér að hún fengi sinn hund hjá einhverjum kalli sem pabbi þekkir líka og hann á sko 3 stelpuhunda eftir og við getum sko bara fengið okkur einn!!!". Lítið mál finnst mér nú, og systkini mín eru alveg sammála mér - við ætlum að hugsa um hann og allt, skil ekki afhverju mamma og pabbi eru svona krumpuð í framan og vita lítið hvað þau eiga að segja?! Þegar pabbi sagði að hann kostaði ansi marga peninga og við ættum þá nú ekki til þá sagði ég bara: "hmmm, nú þarf ég að hugsa, og ég þarf að hugsa hratt! - ég held bara tombólu og segi að hlutirnir kosta 839.000 og þá á ég sko alveg fyrir honum!" Halo. Mig grunar að ég sé alveg að gera útaf við foreldra mína því ég á afmæli á morgun og er eiginlega alveg viss um að ég fái sko hund - sterarnir mínir skilja ekki alveg að þetta sé kannski ekki það skynsamlegasta að gera núna, og mamma varð hreinlega að lofa mér í gærkvöldi, eftir að ég hafði orðið miður mín eftir að hafa heyrt hvað þau voru að tala um (þau héldu að ég væri sofnaður) í sambandi við hundinn (ég heyrði sko orðið nei!!!), að kannski gætum við fengið að skoða hvolpana í dag, bara skooooðaaaaa!

Varðandi lungun mín þá er ég farinn að hósta mikið aftur án þess að ég sé neitt að hreyfa mig og fór ég upp á spító í gær og þar var tekin ný lungnamynd - virðist sem það sé einhver lungnabólga/sýking í öðru lunganu og var ég settur á viðbótarsýklalyf við þau sem ég er að taka, þarf líka að fá Parkódín þegar hóstinn minn er alveg að gera útaf við mig. Ekki kannski alveg það sem við vildum vera að sjá eftir 4 vikur á sterum - við hefðum alveg viljað sjá áframhaldandi "bötnun" eftir að ég var búinn að hreinsa vel útúr lungunum mínum eftir fyrstu 12-14 dagana á sterunum, en ekki að þá tæki við stöðugur hósti sem fer versnandi Errm. Ég er nú ekkert mikið að pæla í þessu, finnst þetta bara ótrúlega pirrandi að vera alltaf hóstandi og svo er ég alllllltaf svangur - morgunmaturinn minn samanstendur nú oft af ýmsum matartegundum, t.d. margarítupizzusneið, flatköku með smjöri og osti, og svona eins og einni brauðsneið með lifrarkæfu, með þessu finnst mér best að fá ískalt kók (annaðhvort í gleri eða dós) og finnst frekar fúlt hvað mamma og pabbi eru ströng á þessu með kókið - heimta meira að segja að ég drekki lágmark tvö glös af vatni á dag ("útaf nýrunum", segir mamma - ohhhhh!)!!!

Með fyrirframafmæliskveðjufrámértilmín,

Benjamín Nökkvi AlltíEinuHundaElskari


Mikilvægi þess að búa til minningar í minningabankann!

Hæ krúsulúsur, langaði að láta aðeins vita af mér - er búinn að vera á háskammtasterameðferð núna í tæplega 3 vikur (allavega 9 vikur eftir, pjúff!) og er kominn með smá "moonface" útlit. Hungrið sverfir mikið að og ég er nú dottinn aftur í pylsur, snakk, lakkrís með súkkulaði, osfrv. (flest af þessu á helst að takmarka við mig þar sem þetta er allt fullt af natríumi (salti) sem valdið miklu álagi á nýrun mín, en hvernig er hægt að neita svona krúttibollu þegar sett eru upp "hundaaugu" (veit alveg hvernig ég á að gera sko!). Niðurstöðurnar úr svefnrannsóknunum sýndu að ég þyrfti að nota súrefni á nóttunni þannig að nú erum við komin með súrefnisvél heim (hlussugræja sem býr til súrefni fyrir mig) og ég þarf að vera með súrefnisgleraugu alla nóttina og að sjálfsögðu var hægt að semja við mig um að nota þau (fæ 300 kall fyrir hverja nótt - er sko að safna mér fyrir tölvuleik Wink). Ég þarf samt ekki svo mikið súrefni, 0.75 lítra, og það virðist vera að hjálpa mér til að halda súrefnismettuninni yfir 90% á nóttunni. Sterarnir virðast líka vera að gera gagn, en fyrstu 10-12 dagana eftir að ég byrjaði á sterunum var ég síhóstandi, mörg hundruð sinnum á klukkustundFrown, og mamma og pabbi voru orðin skíthrædd um að álagið á æðagúlana yrði svo mikið að þeir myndu rofna (sérstaklega þar sem svona miklir sterskammtar veikja slímhúðina og hækka yfirleitt blóðþrýsting sem veldur enn meira áhættu á að gúlarnir rofni) en við höldum okkur við að taka einn dag í einu. Ástæðan fyrir hóstanum var svokölluð "hreinsun" en þetta sagði Óskar lungnalæknir að hann sæi oft hjá fullorðinssjúklingum sem fara á svona mikla stera þannig að við sjáum þetta sem jákvætt, og svo losnaði hlussuslímtappi síðustu helgi sem hafði líklega stíflað loftflæðið í hægra lunganu mínu þannig að nú er svipað loftflæði í báðum lungunum mínum. Úthaldið mitt hefur aukist til muna og nú get ég farið í fótbolta við pabba og krakkana (pabbi meira að segja tæklaði mig um daginn og ég fékk smá sár sem ég sýni hverjum sem er og finnst frekar svalt) - ég get núna verið næstum 2 klukkutíma í fótbolta sem er rosa munur því áður gat ég ekki verið með í meira en ca. 2-4 mínútur þannig að munurinn er ótrúlegur.

 Ég er í vikulegu eftirliti núna, til að fylgjast vel með öllum mögulegum aukaverkunum af sterunum, og við vonum alltaf það besta (að hægt sé að lækna þetta), nýtum okkur æðruleysi og reynum að taka einn dag í einu og njóta hans. Mamma og pabbi eru dugleg við að hlaða fallegum minningum inn í minningarbankann, á hverjum degi er sko nefnilega alltaf fullt af hlutum sem við stundum missum af því við gleymum stundum að njóta hvers dags, en eftir þetta síðasta áfall staldra mamma og pabbi mikið við og setja hlátursköst okkar krakkana, skondnar samræður, gullkorn sem detta af vörum okkar, samstöðu okkar systkinanna (þrátt fyrir þras og rifrildi) og væntumþykju til hvers annars (og svo mætti lengi telja) í minningarbankann til að eiga og geta rifjað upp síðar. Eins og við höfum oft sagt þá er lífið ekki endilega bara líf og dauði heldur snýst það um lífsgæði, og eins lengi og ég vil vera hér mun ég berjast og fjölskylda mín með mér - ALLTAF!!!

Með fótboltadellukveðju,

Benjamín Nökkvi Cassias (hinn frægi markmaður)


Hinn íslenski súpermann!

Benjamín Nökkvi Björnsson
Benjamín Nökkvi Björnsson
Alvöru ofurhetja sem komist hefur í gegnum tvenn beinmergsskipti með hjálp einstakrar ástar á lífinu!
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband