Bloggfærslur mánaðarins, desember 2006
29.12.2006 | 16:54
Djíssöss, árið alveg að verða búið!
Helló kæru vinir, jamm, ég er líklega ekki einn um að finnast þetta hið undarlegasta mál - að 2006 sé alveg að renna sitt skeið - finnst allavega tíminn hafa verið "sci-fi-fljótur" að líða. Í raun er það hið besta mál, því tíminn vinnur með mér og ekki á móti (eins og hjá þeim sem eldri eru og eru farnir að spá í Botox vs. ekki Botox!). En þar sem ég er bara þriggja ára gæi (og yndislega bjútífúl og sléttur) þá er liðinn tími mér í hag þar sem hugsunin er "því lengri tími sem líður frá seinni mergskiptum og ég er hreinn því meiri möguleikar að hvítblæðið taki sig ekki upp aftur". Nenni ekki að pæla svo mikið í því meir, en auðvitað liggur kvíðinn alltaf og mallar undirniðri, en nóg um það! Ég er allur að hressast (en ekki hvað!), smellti mér í afmæli í gær til krúttfrænku minnar sem varð 8 ára og ætlaði eiginlega bara að flytja inn því ég elska sko pabba hennar frekar mikið - hann er svo skemmtilegur og hann hefur líka farið með mig á Mcdonalds og keypt nagga handa mér!! Ekki svo slæmur kall það, skal ég segja ykkur. Mamma náði þó að rífa mig með sér heim (eftir að hafa mútað mér með Mcdonaldsferð!) og við systkinin héldum uppi þrusustuði þar til að verða 23 í gærkvöldi (lesist "3 börn til sölu svo þreyttir, óúthvíldir foreldrar geti hvílt sig eftir jólafríið!!!"). Anyways, þá var súrefnisvélin sótt í dag, enda óþarfi að ég væri að halda henni hjá mér þar sem ég var ekki að nota hana neitt. Ég er semsagt búinn að vera í stuði síðustu daga og hef stundað það grimmt að leggja mig smástund á kvöldin en síðan ákveðið að jólafríið ætti að nýta til að skemmta foreldrum mínum, þannig að ég hef tekið það að mér á kvöldin að vakna eftir svona hálftíma-klukkutímalúr og vera vakandi laaaaaangt framyfir miðnætti, foreldrum mínum til ánægju og yndisauka! Rétt í þessu var ég að renna framúr sófanum þar sem hornið á sófaborðinu stakkst í ennið á mér, þannig að við ætlum að hætta hér og halda áfram að hafa kalda þvottapokann við ennið svo ég fái nú ekki risakúlu á ennið.
Með hrakfallabálkakveðju ("ætli ég sé eitthvað skyldur mömmu og Teklu systir, hmmm"),
Benjamín Nökkvi Súperstöðer
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.12.2006 | 10:43
Boxpúði, fótboltaspil, verkfæri, Baby Born, peysa.........
Já, jólagjafirnar voru margar í ár og okkur fannst það frábært! Besta jólagjöfin okkar er samt sú að við vorum öll saman á jólunum og í desember var liðið 1 1/2 ár síðan ég fór í seinni mergskiptin, og beinmergurinn sem var tekinn þegar ég fór í svæfingu um daginn var hreinn! - ÞAÐ ER BESTA JÓLAGJÖFIN! Ég fékk sko bæði búðakassa (með Hrafnhildi systir) og verkfæraborð með allskonar verkfærum, en þeir sem þekkja mig vita að ég elska að leika með þessa hluti á leikstofu Barnaspítalans og því var ekki svo flókið fyrir mömmu og pabba að ákveða hvað ætti að gefa mér í ár. Hrafnhildur fékk Baby Born dúkkuna sem hún hafði óskað sér, sem pissar, kúkar, drekkur, lokar augum og allskonar meira. Hún fékk sko líka bikiní sem hún að sjálfsögðu smellti sér í um leið og hún var búin að taka það upp, æi, hún er svo fyndin hún dúlla - í bikiní á aðfangadag!! Ég og Nikulás fengum líka varabúning Barcelona og skelltum okkur auðvitað í það og því var þetta sannkallað Fylkisaðfangadagskvöld, en appelsínugulur er litur Fylkis (liðsins okkar). Pabbi fékk peysur, sem hann hafði óskað sér, og mamma fékk geggjaðan boxpúða og hanska frá pabba og okkur krökkunum (sem hún hafði óskað sér en reiknaði alls ekki með að fá)! Ég veit, mörgum finnst örugglega frekar skrítið að gefa mömmunni boxpúða í jólagjöf, enda varð strákurinn í búðinni sem hann var keyptur í ansi vandræðalegur þegar hann heyrði að þetta væri "mömmujólagjöfin" í ár! Ha, ha, ha, þeim sem finnst þetta skrítið þekkja sko ekki mömmu mína, hún æfði sko kikkbox í Danmörku fyrir mörgum árum og hefur alltaf dreymt um að fara að æfa það aftur en hefur aldrei komist til þess en núna getum við hengt upp púðann niðri í kjallara og þar er sko hægt að æfa sig! Mamma ætlar að skella inn nýjum myndum en þar sést jólaklipping feðgana (þ.e. Nikulásar og pabba - en við mamma komumst ekki í jólaklippingu þar sem við vorum uppi á spító fram á föstudag), en mikilvægt er að segja frá því að Nikulás bróðir er nýgreindur með einhvern svona hársjúkdóm (Alopecia Areata) og hefur verið að missa hárið undanfarnar vikur. Þessvegna er best að vera mjög stuttklipptur og pabbi vildi þá líka vera þannig sko, enda er Nikulás með sömu klippingu og Ronaldo (sem er í Brasilíu) var með árið 2002, bara flottur sko!!!!
Með jóladúndurkveðju,
Benjamín Nökkvi "Kalkonelskari" (fyrir þá sem ekki geta lesið þá þýðir þetta kalkúnelskari, en flottari er að segja "Kalkon")
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
24.12.2006 | 15:38
Yess, jólin eru í dag!
Hæ elskurnar, yepp ég er kominn heim í kotið - TJÚHHHÚÚÚ!!!!!
Ég fékk að fara heim af spítalanum seinnipart föstudags og fékk með mér hlunkavél sem framleiðir súrefni, til að ég gæti andað betur en ég hef verið að gera undanfarið. Það komu þessar ljúfu konur frá Súrefnisþjónustunni (já, mig minnir að það hafi heitið það) og kenndu okkur á allar græjur og létu okkur líka frá tvo súrefniskúta til að hafa á leiðinni heim. Mamma sagði þeim að líklega þyrfti ég nú ekki súrefni á leiðinni heim (enda ekki nema 15 mínútna akstur) og mjög trúlegt væri að ég myndi nú snúa á liðið og fara að metta vel sjálfur þegar ég kæmi heim (metta = anda vel og fá næginlegt súrefni í kroppinn, sko!). Jamm, sú gamla þekkir mig orðið ansi vel, enda af sama stríðniskyni og ég:) Semsagt, þurfti ég ekkert súrefni þegar ég kom heim, hékk í 90 það sem eftir var dags en þurfti svo að notast við súrefnisgripinn yfir nóttina þar sem ég seig undir 85 þegar ég var sofnaður. Eeeen, í gær hélt ég áfram að hækka í menntun, var 91-96 í mettun og náði að halda mér yfir 90 í nótt, oooog í morgun er ég búinn að vera frá 92-96 - hinn sprækasti krúttkall, enda jólin á næsta leiti. Ég er eiginlega að springa úr spenning og fannst nú að við hefðum bara getað opnað pakkana í gær þar sem þurfti nú að troða þeim undir tréð þannig að ég sá þá, lét það samt vera - selfcontrol, selfcontrol...... Ég ákvað nú að leggja mig smávegis (er sko sofandi í augnablikinu) því ég ætla að hafa stuð í kvöld og alls ekki að missa af neinu - ekki það að ég hafi farið snemma að sofa síðustu tvö kvöld en í gær sló ég nú öll met og fór ekki að sofa fyrr en með þeim gömlu, semsagt 00.30, og ætlaði eiginlega ekki að fara sofa þá heldur - sagði við mömmu "Common, skemmtileg" (frasar frá Nikulási bróður)!
Nú ætlar mamma að skella sér í steikina þannig að við heyrumst aftur á morgun.
Einlægar kærleikskveðjur til ykkar allra og munið að besta gjöfin af öllum er að geta verið með þeim sem maður elskar á jólunum (það finnst okkur allavega). Guð og englarnir vaki yfir ykkur öllum og megið þið eiga gott og gæfuríkt ár fyrir höndum.
Kossa og knúskveðjur,
Benjamín Nökkvi Jólastrákur
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.12.2006 | 12:24
Inn og út af spító (syngist við lagið "inn og út um gluggan")!
Komið margblessuð og sæl. Ég (Benjó) hef ákveðið að færa mig hingað inn í bili þar sem ritarinn minn (mamma) er orðin frekar þreytt á því flókna umstangi sem þarf til þegar kemur að því að skrifa í dagbókina mína inni á minni síðu. Það má segja að það sé nánast einungis á færi doktóra í tölvufræðum (eða eitthvað þannig) - allavega finnst mömmu það orðið þreytandi að til þess að skrifa eina dagbókafærslu þarf hún að gera svo margar aðgerðir í tölvunni að hún þarf nánast að leggja sig á eftir. Fyrir utan það, að þegar við erum annarsstaðar en heima, t.d. uppi á spító eins og núna, þá er nánast vonlaust að halda uppi einhverju bloggi nema með því að viðhafa ýmsar kúnstir og nú nennum við því ekki lengur.
Semsagt er ég kominn enn og aftur upp á Barnaspítala - í þriðja sinn síðan í lok nóvember - en nú eru lungun mín pínu veik og ég þarf að hafa súrefni til að súrefnismettunin mín haldist yfir 82, en fyrir þá sem ekki þekkja til á maður að metta svona 99-100%. Ég kom inn á sunnudagskvöldið og í gær fór ég í ristilspeglun, berkjuspeglun, lungun mín voru skoluð og svo var tekið eitt beinmergssýni sem sent verður til Svíþjóðar (til að kíkja á Chimerismann - munið, hversu mikið er af mínum frumum og hversu mikið af Nikulásarfrumum). Well oh well, ég verð hér allavega til morguns og ef ég verð ekki farinn að metta betur þá fæ ég líklega senda með mér vél heim sem býr til súrefni og sem hægt er að tengja mig við til að hjálpa mér að anda vel. Læknarnir mínir eru svona að spá í hvort ég sé með einhverja veirusýkingu í lungunum, sem erfitt er að finna (t.d. Cytomegalovírus, held það sé skrifað einhvern veginn svona), en svo getur líka verið að ég sé með höfnunareinkenni í lungunum og það er ekki alveg nógu gott sko! Það koma vonandi einhverjar niðurstöður í dag, en annars er ótrúlegt hvað við erum eitthvað slök yfir þessu mesti kvíðinn liggur í því hvort fj..... hvítblæðið sé nokkuð að poppa upp aftur, en það er samt ekkert sem bendir til þess.
Ég er kominn í þokkalegan jólafíling og mamma og pabbi eru frekar afslöppuð yfir jólastandinu (allavega mamma), þau eru nefnilega búin að kaupa allar gjafir nema 3, búið að pakka inn með hjálp Öllu ömmu, Rúna amma er búin að passa Nikulás og Hrafnhildi á meðan pabbi hefur verið í vinnunni fram á kvöld í þessari viku (en hann fer í jólafrí á hádegi í dag), og Hjödda hin dásamlega móðursystir mín tók að sér að jólaþrifin, og ekki má gleyma að kærir vinir okkar redduðu okkur elduðum kalkún frá Ameríku (úllalla) sem þarf bara að skella í ofninn í 40 mínútur. Jepp, jólin mega bara koma fyrir okkur, þannig að þó ég fengi ekki að fara heim fyrr en á hádegi á aðfangadag myndi það ekki skipta máli við myndum samt fá góðan mat og umfram allt vera saman og njóta jólanna.
Með spítókveðju,
Benjamín Nökkvi "smáandstutturþessadagana"
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Tenglar
Gamla síðan mín
www.medferd.com/Benjamin
- Benjamín (gamla síðan) Þarna hef ég bloggað síðan haust 2003
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.12.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar