Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008
31.8.2008 | 18:23
Mamman flúin!
Hæ þið elskulega fólk sem þrjóskast við að fylgjast með mér (bara indælt og ljúft). Jamm, mamman mín er stungin af - henni finnst nefnilega nauðsynlegt að fara til Svíþjóðar í 15 daga til að vinna í rannsókninni sinni (niðurstöður ættu að vera á næsta leiti)! Við ætlum nú bara að njóta þess að gera pabban okkar léttgeggjaðri en hann er og láta hann dekra við okkur og snúa honum um fingur okkar krakkana. Ég hef það nokkuð gott, fékk einhverja parainflúensu, missti alveg röddina en kvartaði nú mest lítið um að mér væri illt í hálsinum - sársaukaþröskuldurinn minn er kannski ekki alveg "normal". Hóstaði svolítið í nokkra daga en var bara hitalaus og "tók" þessa rispu bara nokkuð vel verð ég nú að segja (verður sko að teljast til hins jákvæða að ég hafi ekki verið óvenju lengi að jafna mig). Ég er komin í skólahóp (reyndar er þetta kallað eitthvað annað núna en mamman mín getur aldrei munað hvað það er) - allavega er ég núna með elsta hópnum á deildinni og þá er farið að gera ýmsar kröfur til mín sem ég er nú kannski ekki alveg að fíla í botn, t.d. eins og að teikna. Kvartaði við mömmu um þetta og hún bara sagði að ég yrði nú samt að vera áfram og gera það sem hinir væru að gera - hluti af þessu með að teikna er að mér finnst ég ekki góður í því, en það er hluti af mínum síðbúnu afleiðingum, ég næ einhvern veginn ekki að halda rétt á blýantinum og finnst rosa erfitt að stýra honum. Mamma er þó búin að koma því í ferli að það verði kallaður til iðjuþjálfi sem skoðar hvernig ég beiti skriffærum, sem metur síðan hvaða hjálpartæki ég þurfi og svo þarf að hjálpa mér að vinna í þessu. Mamma og pabbi vilja sko alls ekki að ég fari að fá einhverja minnimáttarkennd yfir því þó ég sé ekkert bestur í að teikna, um að gera að hjálpa mér svo ég geti áfram haldið minni glæsilegu sjálfsmynd. Ég er svolítið farinn að pæla í því hvað ég sé þungur og svona - "vill ekki lengur vera 12 kíló", segi ég reglulega - vill vikta mig reglulega og svona, og viti menn, fyrir tveimur dögum fór ég á viktina og var 13,2 (ok, í fötum, en samt). Ég var svo hamingjusamur að ég leyfði sko mömmu að finna vöðvana mína, hvað þeir hlytu að hafa stækkað!!! Ég er alltaf með pústvélina mína og er ótrúlega duglegur að láta mig hafa það að pústa (geri það sko sjálfur!). Næst á dagskrá er að njóta lífsins og halda áfram að tengjast krökkunum í leikskólanum, en ég er farinn að fara í heimsóknir til krakka sem eru jafngömul mér og finnst mér það geggjað - krakkarnir í leikskólanum eru nefnilega ótrúlega góðir krakkar og taka mér eins og ég er, þ.e. þó ég sé aðeins minni en þau þá vilja þau sko alveg leika við mig, og ég held ekkert að þau séu svo mikið að velta sér upp úr því. Ég er nú líka alveg jafnfætis þeim á mörgum öðrum sviðum og það er það sem skiptir mestu máli!
Með Stóristrákurkveðju,
Benjamín Nökkvi Stórisjarmur
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Tenglar
Gamla síðan mín
www.medferd.com/Benjamin
- Benjamín (gamla síðan) Þarna hef ég bloggað síðan haust 2003
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar