Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

Hoppum upp í skýin!

Hæ hó dillidó, ég er frekar kátur þessa dagana því mér líður vel og svo er margt skemmtilegt framundan.  Við höfum ekkert þurft að fara upp á Bráðó síðustu tvær helgar og það er svoooo geggjað að fá að eyða helgunum heima með allri fjölskyldunni - JÚÚÚHHHHÚÚÚ!  Ég er frekar mikið í "júhúúinu", við erum nefnilega búin að fá okkur trampolín (júúúhú), erum að fara í dagsferð með Styrktarfélaginu okkar - Liseberg í Gautaborg - (júúhúú), og við lentum í þeirri þakklátu stöðu að fá úthlutað ferð að eigin vali með Vildarbörnum (ætlum að sjálfsögðu til Orlando í Disneylandið og sjá McQueen - JÚÚÚÚÚÚHHHHHÚÚÚÚÚ!!!!!!).  Mamma er búin að pæla mikið í því hvort hægt sé að segja að við séum heppin að fá að fara í þessi ævintýri og hún hefur komist að því (fyrir sitt leyti) að henni finnst ok að segja að við séum heppin, á þann hátt að við erum ekki heppin að ég hafi orðið veikur og þessvegna föllum við inn í hóp sem stundum nýtur ákveðinna fríðinda, en heppin að fyrst að fjölskyldan okkar varð að feta þennan erfiða veg þá er margt yndislegt fólk sem er tilbúið að létta okkur lífið og gleðja lítil veikindakríli (er ekki lítill lengur, sko!) og systkini þeirra.  Svo fengum við líka trampolín, var ég búin að segja ykkur það?  (já, ég veit, en það er bara svo frábært!!).  Það er nefnilega ekki bara gaman að hoppa á því heldur er það líka súpergott fyrir lungun mín - lungnalæknirinn minn í Svíþjóð mælti sko með þessu, þannig að hægt er að segja að trampolínið hafi verið keypt samkvæmt læknisráði (þó svo að pabbi hafi barist á móti því í heilt árJoyful).  Mamman er nú í Svíþjóð (ég veit, enn eina ferðina), en hey það er vinnan hennar og sú vinna leiðir vonandi til góðs, og pabbi er í kvíðakasti af því að hann þarf að baka fyrir vorhátíðina sem er í skólanum hjá krökkunum 1 maí, hí, hí, hí.  Allt semsagt ljómandi af mér og eftir að ég fékk loksins að fara út (eftir að hafa nánast verið inni við síðan sautjánhundruð og súrkál) má segja að ég hafi næstum búið úti við - I LOVE IT!!!!!

Með gleðigleðigleðistuðkveðju,

Benjamín Nökkvi Trampolínhoppari     


Update!

Hæ öll sömul, ákvað að setja inn smá fréttir en lítið nýtt í gangi, bara bráðó, bráðó, og bráðó (semsagt bráðamóttaka Barnaspítalans).  Erum samt að reyna að vera vongóð um að nú sé vorið að koma og með því betri heilsaGrin.  Fékk háan hita fyrir rúmum 10 dögum og fór þá enn og aftur upp á bráðó, kominn með lungnabólgu (aftur!), settur á ný sýklalyf og fékk hrikalegan, hrikalegan niðurgang, þannig að ég varð að hætta á þeim á 5. degi.  Byrjaði að hósta meira rúmum sólarhring síðar, fór í hefðbundna blóðprufu síðasta föstudag, virtist ágætt hljóðið í lungunum en strax morguninn eftir var ég aftur kominn með hita, bráðó aftur, ný lungnamynd, meiri lungnabólga, pæling að segja mig á sterkt sýklalyf í æð, en mamma hringdi til Svíþjóðar þar sem hún er skíthrædd við öll ný lyf þar sem ég hef nokkrum sinnum fengið alvarlegt bráðaofnæmi við nokkrum lyfjum, og síðasta sumar fékk ég útbrot við einhverju sýklalyfi í Svíþjóð og aldrei var skrifað í pappírana mína hvaða lyf það var.  Semsagt, mamma hringdi og þar sem engar tilviljanir eru í lífinu var sænski læknirinn minn akkúrat að fara af vaktinni (kl. 18 á laugardegi!) og fékk mamma samband við hana og hún gat með krókaleiðum fundið út hvaða lyf þetta var og þá kom í ljós að læknarnir á bráðó hér vildu ekki gefa mér lyfið sem þeir voru að pæla í þar sem (að öllum líkindum) það hefur verið af sama meiði og lyfið í Svíþjóð.  "Mama´s Gutfeeling"!!!! (semsagt innsæi mömmu er helv.... sterkt og hefur hún lært að fylgja því ákveðið eftir ef hún fær mjög óþægilega tilfinningu gagnvart einhverju sem tengist mér - bara fylgja því eftir sko!).  Þá var ákveðið að gefa mér Augmentin í æð, og var sett upp nál og mér gefið í "bólus", fengum svo að fara heim um kl. 17 og komum svo aftur í lyfjagjöf kl. 23, enn á ný kl.9 á sunnudagsmorgunn og svo aftur seinnipartinn í gær.  Óli, læknirinn minn, var á vaktinni í gær og spurði hvaða plön við hefðum fyrir daginn (í gær sko) og mamma og pabbi fóru bæði að hlæja og sögðu að við hefðum sko engin plön, og ef við hefðum þau þá væri þeim bara breytt ef þess þyrfti.  Svona er þetta bara búið að vera í svo mörg á að við erum vön að hafa þetta svona og það er OK þó svo að gaman væri að gera plön fram í tímann, og það er alveg hægt ef maður veit að stundum þarf bara að breyta þeimHalo.  Allavega ætla ég að reyna að fara í leikskólann á morgunn, búinn að vera eins og á 10 földum sterskammti í dag, svo hress og sprækur og kannski langt síðan mér hefur raunverulega liðið eins vel og núna - bara dásamlegt að fá að vera til!!!!

Með vorsprækrikveðju,

Benjamín Nökkvi SprækureinsogRonjaRæningjadóttiráVordegi


Hinn íslenski súpermann!

Benjamín Nökkvi Björnsson
Benjamín Nökkvi Björnsson
Alvöru ofurhetja sem komist hefur í gegnum tvenn beinmergsskipti með hjálp einstakrar ástar á lífinu!
Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband