Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008
29.3.2008 | 18:33
Hefur einhver prófað að labba í sírópi?
Hæ elskurnar, skrítin fyrirsögn en svona held ég að foreldrar mínir upplifi líf okkar síðustu mánuði. Sko, maður ímyndar sér allavega að það sé frekar seigt að labba í sírópi og þannig hefur það verið hjá okkur undanfarið. Ég hef ekki farið í leikskólann minn í ca. 1 mánuð núna, en einn kvillinn leiðir af öðrum - niðurgangspestin sem endaði með innlögn á BSH í febrúar, kvef og smá lungnavandi með því, blóð í hægðunum einhverntíma í byrjun mánaðarins (tvær nætur uppfrá), nýtt kvef, svo tók ég upp á því að fá hrikalegar blóðnasir laugardaginn fyrir páska og var það skelfilegt fyrir foreldra mína að vakna upp og sjá andlitið mitt gjörsamlega allt í blóði og lá ég í frekar stórum blóðpolli (fyrsta hugsunin var að sjálfsögðu sú - áður en þau sáu að þetta kom úr nefinu mínu - að nú væri farið að blæða aftur úr vélindanu, svo fékk ég aftur blóðnasir næstu nótt og þá komu að sjálfsögðu upp skelfing hjá foreldrum mínum um að hvítblæðið væri farið af stað aftur þar sem lækkun blóðflagna (sem lækka þegar hvítblæði fer af stað) getur iðulega valdið blóðnösum eða öðrum blæðingum (ég vil taka það fram að foreldrar mínir reyndu allt hvað þau gátu að horfa rökrétt á þessar blóðnasir, þ.e. að þetta væri af eðlilegum orsökum, en það reynist erfitt þegar kvíðinn fyrir endurkomu hvítblæðisins er stöðugt mallandi í heilanum), eftir að við fórum upp á spító og létum kanna þessi blóðnasamál (sem ekki tengdust endurkomu hvítblæðis - PJÚFFFF!) fékk ég aftur kvef og er búinn að vera ansi slæmur af því. Nú vonum við að ég geti farið í leikskólann eftir helgi (þó svo að ég vilji alls ekki fara þar sem tími minn á leikskólanum er búinn að vera ansi lítill síðan einhverntíma í nóvember - og þess vegna er erfitt fyrir mig að tengjast leikskólanum mínum á þann hátt sem væri æskilegt fyrir mig, er alltaf einhvernveginn á hálfgerðum byrjunarreit). Ég og ritarinn minn gerum okkur grein fyrir að undanfarnar færslur hafa einkennst af hálfgerðum bölmóð en það er mest vegna þess að ritarinn minn hefur haft allt of mikið að segja um innihald færslanna, og ég held að hún "mammí" (sem ég er farinn að kalla hana og finnst ég rosa svalur þegar ég segi það!) sé orðin svo fja..... langþreytt að þó svo að síðasta ár hafi í raun og veru gengið aðeins betur en árið þar á undan, og báðir foreldrar mínir reyni að horfa fram á við í bjartsýni, þá hafa áföllinn verið svo mörg og hafa komið á tímum þar sem vonin um "venjulegt" líf hefur látið á sér kræla en ekki orðið að veruleika og það veldur erfiðari "kjaftshöggum" en maður kannski heldur, en svona er þetta bara. Ég er þó alltaf jafn hress og kátur og ást mín á lífinu er svo uppörvandi að foreldrar mínir geta ekki annað en dást að lífsgleði minni og tekið þátt í henni. Mamma var nefnilega að velta því fyrir sér í nótt (þar sem hún gat ekki sofið eins og oft áður) hvort hægt væri að vera hamingjusamur þó svo að manni liði illa í sálinni - hún bar þetta upp við pabbann minn og hann var sko alveg sammála henni um að þó svo að það virki kannski sem algerar andstæður þá er það sko alveg hægt. Semsagt, við fjölskyldan erum hamingjusöm og reynum eftir fremsta megni að njóta dagsins í dag (ég fer nú sko létt með það) og svo höldum við bara áfram veginn þrátt fyrir að á leiðinni séu nokkrar holur og þúfur sem við hnjótum um. Við megum nefnilega svo sannarlega vera þakklát fyrir það að ég er enn hér, eftir bráðum 5 ára veikindabasl, því yndislegir samferðamenn okkar eru ekki allir svo lánsamir að fá að vera hér eins lengi og ég.
Með langlundargeðskveðju,
Benjamín Nökkvi Lífsnautnarseggur
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
15.3.2008 | 22:13
Inn og út af spító, inn og út af spító........
Komiði margblessuð og sæl, alveg merkilegt hvað maður er latur að skrifa nema þegar eitthvað kemur uppá - en það jákvæða er að þess á milli þá gengur yfirleitt nokkuð vel. Síðan síðast var ég heima í 9 daga, fór meira að segja nokkra daga á leikskólann þar til þær hringdu af leikskólanum síðasta föstudag (fyrir rúmri viku) og sögðu mömmu að það hefði komið smá blóð í hægðirnar mínar. Mamma smellti sér af stað og náði í mig (með hjartað í buxunum!), en ég var nú sko hinn hressasti og leit vel út þannig að við fórum bara heim og hringdum í Sigrúnu hjúkku og fengum ráð hjá henni um hvað við ættum að gera. Mamma og pabbi fylgdust bara með mér, fóru að slaka á, bökuðum föstudagspizzuna okkar og mmmmmm, ég var rétt byrjaður að borða þegar ég þurfti að fara á klóið - pabbi fór með mér og kallaði svo á mömmu en þá var aftur komið blóð í kúkinn minn. Við tókum saman smá dót, hringdum upp á bráða og fórum svo af stað - sem betur fer var Heiðar afi hjá okkur svo hann gat passað Teklu og Nikulás, en við vorum öll frekar spæld yfir að við þyrftum að fara niðureftir því við vorum komin í Helgarfrí (en ég elska helgarfríin mín) og ætluðum að hafa kósístund. Ég skældi svolítið af því að ég vildi sko fá að vera heima, en svona er þetta bara. Það var tekið vel á móti okkur að venju - en mamma og pabbi höfðu ekki áhyggjur af að blóðið kæmi úr vélindanu þar sem það var frekar ferskt og ekki svart, en þegar blóðið fer langa leið verður það svart þegar það kemur út að neðan! Það var tekin blóðprufa og svo sett upp nál til öryggis, síðan var ég lagður inn upp á deildina mína (22E) og var ég bara frekar sprækur sko! Pabbi fór heim til krakkana, en við mamma komum okkur fyrir inni á stofunni og mömmu fannst þetta frekar lummó að af þremur helgum í röð vorum við búin að vera eina heima en tvær uppi á spító - hún grínaðist meira að segja með að við færum aldrei neitt um helgar þannig að ef við yrðum að fá smá tilbreytingu kæmum við upp á spító (he, he, grát, grát!) - hálf dapurlegt grín það! Anywho, þá virðist þetta ekki hafa verið neitt alvarlegt, en við gistum samt í tvær nætur og ég var með nálina í hendinni fram á mánudag - en ég hafði lækkað svolítið í hemóglóbíni (fór niður í 104 úr 113), en ekki vitum við beint hvað þetta var, kannski æðagúlar í ristlinum, viðkvæm slímhúð, eða eitthvað allt annað. Stundum verður maður bara að lifa við að vita ekki alltaf hversvegna hlutirnir gerast, en Shit, hvað það er óþægilegt! Á mánudaginn var ég svo kominn með bullandi kvef og hef því ekki getað farið í leikskólann alla vikuna. Mamma og pabbi eru farin að átta sig á því að ég er langveikt barn og þau eru að reyna að láta hversdagleikann virka en erfiðlega gengur að láta vinnuna ganga upp þar sem ég kemst svo lítið í leikskólann og þau eru voða mikið í að "plástra", þ.e. reyna að finna leiðir til að geta mætt í vinnuna þó að ég sé heima - amman mikið notuð - en þetta er frekar mikið aukaálag. Jæja, nóg um þennan bölmóð, ég hef það alveg ágætt núna og hinn sprækasti - elska bílana mína og "neyði" foreldra mína til að leika við mig í bíló, he, he!
Með endurtekningarkveðju,
Benjamín Nökkvi SúperDúperHetja
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Tenglar
Gamla síðan mín
www.medferd.com/Benjamin
- Benjamín (gamla síðan) Þarna hef ég bloggað síðan haust 2003
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.12.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar