Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2007

"Ég átti afmæli á laugardaginn, ég átti afmæli á laugardaginn, ég átti afmæli ég Benjamín...."

Jepp, átti sko afmæli síðasta laugardag, 28 júlí, og er nú orðinn 4 ára ofurgæi!  Ekki svo margir sem hefðu trúað því, sko!!!  Var á snilldarættarmóti um helgina - ætt móðurömmu minnar (semsagt amma, 6 systkini hennar, börn þeirra og barnabörn), en alls mættu eitthvað um 70 manns og allt þrusu stuðboltar.  Við mættum að Varmalandi seinnipart föstudags, fengu indælis gúllassúpu sem Heiðar afi bjó til (besta súpa ever, sko) og súkkulaðitertu sem Rakel amma bakaði (hef ég minnst á að þau eru pínu ofvirk!!), smelltum okkur svo í smá laut og sungum þar til miðnættis.  Ég vakti allan tímann og á þeim tíma tókst Eyjó frænda og ofursálfræðing að fá mig til að hætta vera hræddur við hunda og eeeeeelska Yasmin hundinn þeirra - believe it or not (one therapy session kraftaverk!)!!.  Á laugardaginn skelltu mamma og krakkarnir sér í sund, en ég, pabbi og nýja langbesta vinkona mín (hundurinn Yasmin) vorum bara á tjaldsvæðinu á meðan, ég hef nefnilega bara einusinni farið í sund (rétt eftir að ég veiktist aftur) og legg ekki alveg í að fara strax aftur - maður getur nefnilega drukknað sko! (mín eigin orð!).  Eftir sundið fórum við í Borgarnes og fengum okkur síðbúin hádegisverð (ég fékk afmælispizzu), síðan var keppt í fótbolta þar sem yngra liðið (börn og barnabörn) rústaði "gamlingjunum" (Nikulás stóð sig snilldarvel og talað er um hann í ættinni sem framtíðar atvinnumann í fótbolta, sem mun halda heiður ættarinnar á lofti í þeim enska) - en þar sem "gamlingjarnir" eru útsmognir voru þeir búnir að búa til reglur sem urðu til þess að þeir telja sig hafa unnið (við hin vitum beturGetLost).  Kvöldmatur var svo innandyra, en boðið var upp á lambakjöt og svínakjöt, en ég vildi nú bara brauð með sméri (sem ég fékk) og svo stóðu þessir trylltu Bæjarar upp og sungu fyrir mig afmælissönginn, bæði á íslensku og sænsku (þar sem stór hópur ættingja minna frá Svíþjóð var á mótinu), en ég varð eiginlega hálf miður mín yfir þessum söng enda skiptar skoðanir hvort um sé að ræða söng eða hávaða!!  Nei, þetta var virkilega fallegt og okkur þótti rosalega vænt um að allir skyldu standa upp fyrir mér og syngja og klappa mér til heiðurs - TAKK ALLIR, ÞIÐ ERUÐ FALLEGT OG SKEMMTILEGT FÓLK!!  Well, komum svo heim í gær og vorum frekar þreytt eftir helgina, en Bæjararnir eru þekktir fyrir að vera miklir stuðboltar og bera svo sannarlega nafn með rentu!  Mikið um upphrópunarmerki í dagi, en svo mikið að leggja áherslu á.  Erum að bíða eftir að heyra eitthvað meira um niðurstöðurnar að utan, en eigum ekki von á að heyra neitt fyrr en í fyrsta lagi í næstu viku. 

Með ættrækniskveðju,

Benjamín Nökkvi Bæjari


Komin heim í hitabylgjuna!!!

Bið vinsamlegast um að fá ekki skömm í hattinn þrátt fyrir að þið hafið þurft að bíða lengi eftir að fá upplýsingar um niðurstöðurnar úr beinmergssýninu, en daginn eftir að við fengum úr sýninu fór af stað mikið snilldar skemmtiprógramm og við ritarinn vorum of uppgefin (þar til nú) að skella inn færslu.  Semsagt (TATTARRRARAAAAAA!) - MERGSÝNIÐ LEIT VEL ÚT!!!  Í raun og veru leit það eins vel út og hægt var að vona, sem þýðir alls engar krabbameinsfrumur og ekki einusinni vísbending um að neitt hræðilegt sé í gangi (mergsýnið var keyrt eftir ákveðinni tækni sem í stuttu máli er þannig að útlit gömlu veiku frumnanna minna er borið saman við þær frumur sem nú voru í mergnum og þær voru, sem betur fer, ekki eins útlítandi - ég veit, pínu flókið, en veiku frumurnar voru með ákveðna "marköra" sem bentu til að þær myndu þróast í krabbameinsfrumur og þegar ég greindist aftur fyrir tveimur árum var mergurinn fullur af þessum ákveðnu frumum, sem er semsagt ekki að sjá í mergnum núna - og hana nú!!).  Anywhooo, þá fengum við ekki svo mikið fleiri niðurstöður - reyndar er ég með einhver gersvepp í lungunum og það eiga eftir að koma niðurstöður úr öllum veirusýnunum sem tekin voru þegar lungun voru skoluð, og eins á eftir að koma úr vefjasýninu sem tekið var úr lungunum.  Svo virðist sem þetta lungnavandamál geti orðið langvarandi og ég fékk ákveðna úðavél til að lungnameðölin nýtist mér betur þegar ég verð kvefaður og svo vildi lungnalæknirinn að það ætti að pústa mig með þremur pústum nokkrum sinnum á dag á hverjum degi til að reyna að koma lungunum í eitthvað betra horf.  Well, nóg um þetta veikindadót - við náðum að skemmta okkur konunglega síðustu dagana í Svíþjóð, fórum í Gröna Lund (mamma og krakkarnir voru tryllt í rússibönunum (samt ekki bananar, he, he, he!)), svo fórum við líka í dýragarðinn og Astrid Lindgrens Värld (mæli með báðum stöðum, sko!), sváfum í einhverjum hræðilegum kofa í Vimmerby (þar sem Astridgarðurinn er) eftir að við komum úr dýragarðinum og höfðum keyrt alla leið til Vimmerby (ekki svo svakalega langt í kílómetrum en með 3 þreytta grísi sem rifust út í eitt þá munaði minnstu að leggja yrði foreldrana inn á næstu geðdeildHalo).  Við komum svo tilbaka í Hamborgarahúsið seint á fimmtudagskvöld (afmælisdaginn hans pabba), föstudagurinn fór í smá verslunarleiðangur (þar sem ég fékk fyrirfram afmæligjöf - rafmagnsbíl, ohhh, minn elskulegi Leiftur McQueen!!), og svo var bara pakkað, þrifið, og heim í yndislega kotið okkar á laugardaginn.  Æði!!  Við erum semsagt lent heim á klakann, einhvernveginn ekki aaaalveg réttnefni þessa dagana, og erum í fríi út mánuðinn - í fyrsta sinn í fjögur ár sem við höfum verið nokkurn veginn í "eðlilegu" sumarfríi og það er frábært.  Það sem var svo stórkostlegt við þessa Svíþjóðarferð var að við fundum hvað okkur líður vel í fjölskyldunni okkar, þrátt fyrir pirring og rifrildi þá vorum við öll loksins saman og skemmtum okkur konunglega að vera "bara" saman.  Heyrumst bráðum aftur.

Með samheldnifjölskyldukveðju,

Benjamín Nökkvi FrúiníHamborgelskari


Live and kicking in Sweden!

Hæ hó krúsulúsurnar mínar!  Pjúff, hvað við erum fegin að það er kominn sunnudagur og rannsóknartörnin að baki.  Lentum hér í Stokkhólmi eftir tíðindalítið flug, en við krílin 3 stóðum okkur frábærlega vel og foreldrar okkar geta ekki annað en verið upp með sér yfir þessum dásamlega meðfærilegu börnum sem þau eiga.  Við dunduðum okkur bara í fluginu, ég sofnaði smá, Hrafnhildur söng alla leiðina og Nikulás spurði mömmu reglulega hvað margar mínútur væru eftir af fluginu - enginn sem grét eða reifst og má það heita hálfgert afrek þar sem við vorum búin að vera vakandi frá því um kl.04 um morguninn.  Tókum svo leigara í Hamborgarahúsið, hentum af okkur töskunum og smelltum okkur í Pulsen til að kaupa smá mat og aðrar nauðsynjarvörur.  Á miðvikudaginn fór ég svo upp á spítala fyrir kl.9, við tók augnskoðun sem tók ca. klukkutíma með því að fá hræðilega dropa í augun, eftir það fór ég upp á deild þar sem við hittum læknana mína og ég var hlustaður og skoðaður, eftir það fór ég til hormónalæknis, og að lokum var ég sendur í hjarta og lungnaröntgen.  Stanslaust prógramm til kl.14.30 - þeir sem ekki þekkja til átta sig kannski ekki á hvað þetta er mikil hlaup, en til að fara í þessar rannsóknir þarf að fara laaaaanga ganga fram og tilbaka, upp og niður hæðir, og aftur fram og tilbaka langa ganga.  Á fimmtudag fór ég svo í hjartalínurit, handaröntgen (til að athuga hvernig vöxturinn er í beinunum mínum eða eitthvað þannig - hvernig ég vex sko!), svo fór ég aftur upp á deild og fékk emlaplástur til að hægt væri að taka blóðprufur og setja upp nál fyrir svæfinguna, svo voru teknar prufurnar (10 glös - ekki að grínast!), svo fór ég að hitta svæfingarlækninn og hún var greinilega mjög þreytt þar sem hún var alltaf að klifa á því þegar tölvan fór ekki í gang hjá henni ("jag är så trött"!!!).  Á föstudeginum var ég aftur mættur fyrir kl.9, fór til lungnalæknis, hitti sjúkraþjálfa sem átti að kenna okkur á nýja úðunarvél sem ég þarf að fá fyrir lungun mín, var svo skellt upp á deild í bað, fékk róandi og brunuðum af stað niður í svæfingu fyrir kl.11.  Í millitíðinni höfðu læknarnir verið að hringja sín á milli en svæfingalæknarnir vildu vita hvort það þyrfti endilega að svæfa mig þar sem lungnamyndatakan sýndi að ég var með smá lungnabólgu og ekki svo sniðugt að vera að svæfa þá.  Krabbameinslæknirinn hringdi þá í lungnalækninn sem hélt að það yrði allt í lagi, og svo varð úr.  Búið var að láta mömmu og pabba vita að ég gæti orðið rosa slappur eftir "bronchoskópíuna" (sprautað vatni í lungun og þau "ryksuguð" og síðan tekið vefjasýni úr lungunum) og að ég þyrfti að sofa eina nótt á spítalanum.  Svæfingin gekk vel, beinmergurinn rann ljúflega og lungnavesenið gekk eins og í sögu en hrikalega mikil drulla var í lungunum og tóku þeir grilljón veirusýni.  Ég svaf lengi eftir svæfinguna en vaknaði síðan svakalega hress, fór upp á deild og var þar í stuði, þeyttist um allt á hjóli (sem var eitt það besta sem hægt er að gera eftir svona lungnaskoðun, þ.e. að hreyfa sig til að ná upp meira slími).  Ég fékk engan hita um kvöldið eins og búist var við, sofnaði svo um 23.30 og við mamma vöknuðum svo frekar hress í gærmorgun.  Fékk að útskrifast fyrir kl.11 og við fjölskyldan skelltum okkur þá niður í Hamborgarahúsið þar sem við slöppuðum af (loksins!!) það sem eftir var dagsins.  Í dag fórum við svo í svona tilraunagarð (Tom Titt) þar sem voru um og yfir 400 mismunandi uppfinningar og tilraunir sem hægt var að skoða og reyna við - ógeðslega gaman, sko!  Á morgun er það Gröna Lund (tívolí), á þriðjudaginn þurfum við að hitta lækninn og fá einhverjar niðurstöður úr mergsýninu og lungnarannsókninni, á miðvikudag langar okkur að skella okku í Astrid Lindgrens Värld, sem er í 3 klukkutíma fjarlægð héðan, en þar ætlum við að gista og skella okkur svo í dýragarð (Kolmården) á fimmtudag, pakka svo á föstudag, og svo er það "home, sweet home" á laugardag.  Ég veit, smá maraþonskrif í restina, en ritarinn er lúin og ákvað að smella restinni með í stikkorðastíl.

Með Kanelbullekveðju,

Benjamín Nökkvi SúperdúperHero


Hinn íslenski súpermann!

Benjamín Nökkvi Björnsson
Benjamín Nökkvi Björnsson
Alvöru ofurhetja sem komist hefur í gegnum tvenn beinmergsskipti með hjálp einstakrar ástar á lífinu!
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband