Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007

Góðir hlutir gerast hægt!

Hejsan svejsan! Maður þarf að skella sér í sænskuna af og til til að rifja hana upp, sérstaklega þegar ferð til Svíþjóðar fer að nálgast.  Við fengum að vita í vikunni að búið er að skipuleggja eftirlitsheimsókn fyrir mig og förum við 3 júlí.  Prógrammið er stíft í 3 daga - heilalínurit, hjartalínurit, lööööng augnskoðun, heimsókn til hormónalæknis, blóðprufur of course, og síðast beinmergstaka og vefjasýnataka úr lungunum.  Við báðum um að sleppa tannlækninum, þar sem við erum með fínan tannlækni hér heima, og eins nennum við ekki að hitta félagsráðgjafann þar sem við búum hér á Íslandi en ekki í Svíþjóð og markmiðið með að hitta félagsráðgjafann er fyrst og fremst hugsað í tengslum við félagslega aðstoð.  Annars værum við alveg til í að hitta hann og hana (þau eru í teymi) yfir kaffibolla og spjalla, því þau hafa reynst mömmu og pabba vel í bæði skiptin og tekið upp mál á spítalanum í Svíþjóð sem mömmu fannst ganga út yfir öll mörk, en með því að taka það upp með deildunum var það líka lagað - sem er frábært!  Semsagt, þar sem þessi ferð lendir á sumarfrístímanum erum við sko að spá í að fara öll saman!!  Í fyrsta sinn í tvö ár sem við færum öll saman til Svíþjóðar og mikið væri nú gaman ef niðurstöðurnar væru góðar og við gætum notið þess að fara saman í tívolí og kannski Astrid Lindgren garðinn (en ég hef aldrei komið í hann bara Nikulás og Tekla).  Við ætlum semsagt að lengja ferðina smá og gera smá frí úr henni - heitasta óskin er að sjálfsögðu sú að allt líti vel út svo við getum öll upplifað þessa ferð sem hálfgerða sigurferð þar sem þetta er stór áfangi í mínu veikindaferli.  Málið er nefnilega það að þó svo að við höngum ekki í neinum tímaramma þá er samt gríðarlega stór áfangi fyrir mig að hvítblæðið hafi ekki tekið sig upp aftur, og ef eitt ár bætist við þá gefur það okkur auknar vonir um framtíðarbata.  Pjúff, þvílík langloka!  Anyways, þá er niðurgangurinn loks að láta undan síga eftir næstum 2 vikna stanslausan rennikúk (pardon my French!) og nú get ég vonandi farið að bæta aðeins á mig aftur, en ég léttist allt of mikið þannig að 12 kílóa takmarkið stóð ekki nema í 1 dagShocking  Skítt með það (he, he, skítt sko - þið vitið, niðurgangur!), ég er sprækur þessa dagana og ég eeeeeelska lífið og allt sem það hefur upp á að bjóða.  Njótum þess að vera til og ég tek aðra mér til fyrirmyndar þegar ég minni ykkur á kæru lesendur að sýna og segja þeim sem þið ferðist með að ykkur þyki vænt um þá og verið dugleg að kyssast og knúsast, það gefur lífinu gildiHalo

Með væntumþykjufyrirlífinukveðju,

Benjamín Nökkvi SúperOfur!


Kominn á tvö hjól, sko!!

Hæ, hó, hí, verð að fá að deila með ykkur skemmtilegri framför hjá mér sem okkur fjölskyldunni finnst dásamleg - Ég er farinn að hjóla á tvíhjóli!!!  Ég notast að sjálfsögðu við hjálpardekk, en fyrir lítinn kall sem fór ekki að ganga fyrr en fyrir rúmu ári síðan þá hlýtur þetta að vera merki um aukinn styrk í fótunum mínum og aukið úthald og það er bara geggjað!  Afi Hörður bætti gamla tvíhjólið hans Nikulásar og á tveimur dögum lærði ég að hjóla á því, frá því að þurfa hjálp með pedalana og koma mér af stað í það að þeysast hring eftir hring (inni - úr holinu í stofuna og gegnum eldhúsið).  Gersamlega frábært alveg, og mömmu og pabba finnst æði að heyra mig segja "ég fer svooooo hratt!!". Ég tók upp á því að fá þvílíka magapest í fyrrinótt, ældi og ældi þannig að mömmu stóð sko ekki á sama, og þegar ég var búinn að gubba ca.20 sinnum sofnaði ég úrvinda, vaknaði svo aðeins hressari en hafði og hef litla lyst.  Ég fór því ekkert í leikskólann í gær og í dag, en amma passaði mig í dag svo að mamma kæmist í vinnuna.  Er samt að hressast og farinn að stríða eins og ég er vanur þannig að líklega fer ég á leikskólann á föstudaginn.  Ég er búinn að tala við pabba nokkrum sinnum í gegnum tölvuna en hann er að fíla Indland og lenti í afmælisveislu í gær þar sem voru pizzur og hamborgarar án kjöts!  Held að hann sé ekki búinn að borða neitt kjöt síðan hann kom til Indlands á sunnudaginn, og finnst það bara gott mál.  Ég var í blóðprufu á mánudaginn og hún leit vel út, líklega er ég síðan á leiðinni út til Svíþjóðar um miðjan júní - er að fara í 2 ára skoðunina og við krossum fingur fyrir að það komi vel út, ekki satt!!  Er að fara í smá afmæliskvöldmat til Gumma afa og Öllu, en mamman á afmæli í dag, 35 ára!!!  En yndisleg móðursystir mín sagði mömmu að slaka á aldurskomplexunum því í dag er 35 hinn nýi 25 ára aldur!!  Það má lengi telja sér trú um það og mamma ætlar bara að fíiiiiila það að komast nær fertugsaldrinum og hana nú!

Með framfarakveðju,

Benjamín Nökkvi hinn Tvíhjólandi


Hvað get ég sagt?

Ekkert mér til afsökunar, bara mikið að gera hjá öllum og ekki fer það neitt minnkandi fyrir sumarfríCrying  Pabbi að smella sér til Indlands i vinnuferð eftir viku, ég fer mögulega til Svíþjóðar í 2 ára eftirlit nokkrum dögum eftir að hann kemur heim, svo er fótboltamót á Laugarvatni (Nikulás), Hrafnhildur á afmæli nokkrum dögum seinna (6 ára), NOPHO ráðstefna sem mömmu langar að kíkja á og samstarfsmaður hennar frá Svíþjóð kemur til á ráðstefnuna og til að funda með henni, mamma fer fyrir inntökunefnd í Svíþjóð örfáum dögum seinna, og svo er bara nánast skollið á sumarfrí.  PJÚFFF, ég verð bara sveittur af því að hugsa um þetta!!  Annars er ágætt að frétta af mér, ég varð kvefaður rétt áður en mamma og pabba fóru til New York, var góður í nokkra daga og kvefaðist svo aftur.  Við höldum að þetta hafi verið einhver leiðindarveira sem hafi stungið sér í kroppinn minn þar sem ég var svona lengi að jafna mig, fékk líka mikinn niðurgang og húðútbrot þegar kvefið var að lagast en það hefur gerst áður þegar ég hef fengið veirukvefpest.  Ég er ekki alveg að skilja þetta sumar, það kemur aldrei nótt!!  Akkúrat núna er ég niðri í kjallara með pabba og Nikulási í fótbolta og Teklan mín er heima hjá vinkonu sinni í grillpylsum (búin að vera þar í allan dag og smellti sér bara með þeirri fjölskyldu í hesthús - algjör flakkari þessi systir mín).  Ég er alltaf sami stuðboltinn og þroskast með hverjum deginum, lungun mín eru enn smá viðkvæm og maginn líka stundum, en annars líður mér ansi vel og finnst lífið algjörlega geggjað.  Skal reyna að vera duglegri að koma með fréttir af mérHalo

Með frestunaráráttukveðju,

Benjamín Nökkvi kjallarafótboltagæi


Hinn íslenski súpermann!

Benjamín Nökkvi Björnsson
Benjamín Nökkvi Björnsson
Alvöru ofurhetja sem komist hefur í gegnum tvenn beinmergsskipti með hjálp einstakrar ástar á lífinu!
Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband