Leita í fréttum mbl.is

Boxpúði, fótboltaspil, verkfæri, Baby Born, peysa.........

Já, jólagjafirnar voru margar í ár og okkur fannst það frábært!  Besta jólagjöfin okkar er samt sú að við vorum öll saman á jólunum og í desember var liðið 1 1/2 ár síðan ég fór í seinni mergskiptin, og beinmergurinn sem var tekinn þegar ég fór í svæfingu um daginn var hreinn! - ÞAÐ ER BESTA JÓLAGJÖFIN!  Ég fékk sko bæði búðakassa (með Hrafnhildi systir) og verkfæraborð með allskonar verkfærum, en þeir sem þekkja mig vita að ég elska að leika með þessa hluti á leikstofu Barnaspítalans og því var ekki svo flókið fyrir mömmu og pabba að ákveða hvað ætti að gefa mér í ár.  Hrafnhildur fékk Baby Born dúkkuna sem hún hafði óskað sér, sem pissar, kúkar, drekkur, lokar augum og allskonar meira.  Hún fékk sko líka bikiní sem hún að sjálfsögðu smellti sér í um leið og hún var búin að taka það upp, æi, hún er svo fyndin hún dúlla - í bikiní á aðfangadag!!  Ég og Nikulás fengum líka varabúning Barcelona og skelltum okkur auðvitað í það og því var þetta sannkallað Fylkisaðfangadagskvöld, en appelsínugulur er litur Fylkis (liðsins okkar).  Pabbi fékk peysur, sem hann hafði óskað sér, og mamma fékk geggjaðan boxpúða og hanska frá pabba og okkur krökkunum (sem hún hafði óskað sér en reiknaði alls ekki með að fá)!  Ég veit, mörgum finnst örugglega frekar skrítið að gefa mömmunni boxpúða í jólagjöf, enda varð strákurinn í búðinni sem hann var keyptur í ansi vandræðalegur þegar hann heyrði að þetta væri "mömmujólagjöfin" í ár!  Ha, ha, ha, þeim sem finnst þetta skrítið þekkja sko ekki mömmu mína, hún æfði sko kikkbox í Danmörku fyrir mörgum árum og hefur alltaf dreymt um að fara að æfa það aftur en hefur aldrei komist til þess en núna getum við hengt upp púðann niðri í kjallara og þar er sko hægt að æfa sig!  Mamma ætlar að skella inn nýjum myndum en þar sést jólaklipping feðgana (þ.e. Nikulásar og pabba - en við mamma komumst ekki í jólaklippingu þar sem við vorum uppi á spító fram á föstudag), en mikilvægt er að segja frá því að Nikulás bróðir er nýgreindur með einhvern svona hársjúkdóm (Alopecia Areata) og hefur verið að missa hárið undanfarnar vikur.  Þessvegna er best að vera mjög stuttklipptur og pabbi vildi þá líka vera þannig sko, enda er Nikulás með sömu klippingu og Ronaldo (sem er í Brasilíu) var með árið 2002, bara flottur sko!!!!

Með jóladúndurkveðju,

Benjamín Nökkvi "Kalkonelskari" (fyrir þá sem ekki geta lesið þá þýðir þetta kalkúnelskari, en flottari er að segja "Kalkon")


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mikið er gott að heyra að allt fór vel og þið gátuð notið jólanna saman.

Hjá okkur hefur þetta ekki verið alveg svona viðburðarríkt en Kjartan fékk lungnabólgu þannig að við Ásgeir erum eins lítið heima og við mögulega getum (ekki af því að við viljum vera leiðinleg, heldur af því að Ásgeir er í stórum áhættuhópi á að fá lungnabólgu líka, sem við auðvitað viljum ekki).  Annars vildum við bara óska ykkur gleðilegra jóla og við skiljum alveg allar þessar mettunartölupælingar (þótt við höfum ekki þurft að hafa áhyggjur af slíku í meira en 2 ár en Ásgeir fór lægst niður í 62% í flugvélinni á leið til Boston en hann hafði þá aldrei verið í 100% mettun þannig að hann þekkti ekki hversu gott það var, fyrr en eftir Bostonferðina).

En það er gott að heyra að þið fenguð súrefnið heim, gátuð notið jólanna saman og umfram allt að mergurinn hans Benjamíns væri hreinn.´

Bestur kveðjur Kjartan, Andrea og Ásgeir Valur.

Andrea (IP-tala skráð) 27.12.2006 kl. 00:44

2 identicon

Gleðilega hátíð og til hamingu með nýju síðuna... hún er rosa flott! Gaman að heyra að þið gátuð notið jólanna saman.

Kær kveðja, Anna Lóa 

Anna Lóa (IP-tala skráð) 28.12.2006 kl. 00:00

3 identicon

Ég heppin að ramba á nýju síðuna þína, var búin að vera hugsa til ykkar og velta mér upp úr því hvernig gengi. Frábærar fréttir með mergin hans Benjamíns og yndislegt að þið gátuð haft það huggulegt saman um jólin. Hlýjar kveðjur frá mér og mínum. Mömmuklúbbs Kristín

Kristín Njáls (IP-tala skráð) 28.12.2006 kl. 21:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Hinn íslenski súpermann!

Benjamín Nökkvi Björnsson
Benjamín Nökkvi Björnsson
Alvöru ofurhetja sem komist hefur í gegnum tvenn beinmergsskipti með hjálp einstakrar ástar á lífinu!
Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband