29.3.2008 | 18:33
Hefur einhver prófað að labba í sírópi?
Hæ elskurnar, skrítin fyrirsögn en svona held ég að foreldrar mínir upplifi líf okkar síðustu mánuði. Sko, maður ímyndar sér allavega að það sé frekar seigt að labba í sírópi og þannig hefur það verið hjá okkur undanfarið. Ég hef ekki farið í leikskólann minn í ca. 1 mánuð núna, en einn kvillinn leiðir af öðrum - niðurgangspestin sem endaði með innlögn á BSH í febrúar, kvef og smá lungnavandi með því, blóð í hægðunum einhverntíma í byrjun mánaðarins (tvær nætur uppfrá), nýtt kvef, svo tók ég upp á því að fá hrikalegar blóðnasir laugardaginn fyrir páska og var það skelfilegt fyrir foreldra mína að vakna upp og sjá andlitið mitt gjörsamlega allt í blóði og lá ég í frekar stórum blóðpolli (fyrsta hugsunin var að sjálfsögðu sú - áður en þau sáu að þetta kom úr nefinu mínu - að nú væri farið að blæða aftur úr vélindanu, svo fékk ég aftur blóðnasir næstu nótt og þá komu að sjálfsögðu upp skelfing hjá foreldrum mínum um að hvítblæðið væri farið af stað aftur þar sem lækkun blóðflagna (sem lækka þegar hvítblæði fer af stað) getur iðulega valdið blóðnösum eða öðrum blæðingum (ég vil taka það fram að foreldrar mínir reyndu allt hvað þau gátu að horfa rökrétt á þessar blóðnasir, þ.e. að þetta væri af eðlilegum orsökum, en það reynist erfitt þegar kvíðinn fyrir endurkomu hvítblæðisins er stöðugt mallandi í heilanum), eftir að við fórum upp á spító og létum kanna þessi blóðnasamál (sem ekki tengdust endurkomu hvítblæðis - PJÚFFFF!) fékk ég aftur kvef og er búinn að vera ansi slæmur af því. Nú vonum við að ég geti farið í leikskólann eftir helgi (þó svo að ég vilji alls ekki fara þar sem tími minn á leikskólanum er búinn að vera ansi lítill síðan einhverntíma í nóvember - og þess vegna er erfitt fyrir mig að tengjast leikskólanum mínum á þann hátt sem væri æskilegt fyrir mig, er alltaf einhvernveginn á hálfgerðum byrjunarreit). Ég og ritarinn minn gerum okkur grein fyrir að undanfarnar færslur hafa einkennst af hálfgerðum bölmóð en það er mest vegna þess að ritarinn minn hefur haft allt of mikið að segja um innihald færslanna, og ég held að hún "mammí" (sem ég er farinn að kalla hana og finnst ég rosa svalur þegar ég segi það!) sé orðin svo fja..... langþreytt að þó svo að síðasta ár hafi í raun og veru gengið aðeins betur en árið þar á undan, og báðir foreldrar mínir reyni að horfa fram á við í bjartsýni, þá hafa áföllinn verið svo mörg og hafa komið á tímum þar sem vonin um "venjulegt" líf hefur látið á sér kræla en ekki orðið að veruleika og það veldur erfiðari "kjaftshöggum" en maður kannski heldur, en svona er þetta bara. Ég er þó alltaf jafn hress og kátur og ást mín á lífinu er svo uppörvandi að foreldrar mínir geta ekki annað en dást að lífsgleði minni og tekið þátt í henni. Mamma var nefnilega að velta því fyrir sér í nótt (þar sem hún gat ekki sofið eins og oft áður) hvort hægt væri að vera hamingjusamur þó svo að manni liði illa í sálinni - hún bar þetta upp við pabbann minn og hann var sko alveg sammála henni um að þó svo að það virki kannski sem algerar andstæður þá er það sko alveg hægt. Semsagt, við fjölskyldan erum hamingjusöm og reynum eftir fremsta megni að njóta dagsins í dag (ég fer nú sko létt með það) og svo höldum við bara áfram veginn þrátt fyrir að á leiðinni séu nokkrar holur og þúfur sem við hnjótum um. Við megum nefnilega svo sannarlega vera þakklát fyrir það að ég er enn hér, eftir bráðum 5 ára veikindabasl, því yndislegir samferðamenn okkar eru ekki allir svo lánsamir að fá að vera hér eins lengi og ég.
Með langlundargeðskveðju,
Benjamín Nökkvi Lífsnautnarseggur
Tenglar
Gamla síðan mín
www.medferd.com/Benjamin
- Benjamín (gamla síðan) Þarna hef ég bloggað síðan haust 2003
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
hæ hæ
sendi hlýja strauma til ykkar allra og það sem við hér á þessu heimili dáumst alltaf að ykkur.
Berglind og co
Berglind (IP-tala skráð) 29.3.2008 kl. 20:11
Það er svo sannarlega hægt að vera hamingjusamur þrátt fyrir mjög erfiðar aðstæður. Búddisminn kennir þetta til dæmis og segir að aldrei sé hægt að dæma hamingju fólks út frá aðstæðum þeirra einmitt vegna þess að aðstæðurnar gera ekki hamingjuna heldur hugur fólksins.
Kær kveðja og knús til ykkar allra hamingjusömu fjölskyldu sem er hamingjusöm þrátt fyrir mikla erfiðleika. Slík hamingja er mjög dýrmæt
Dísa Dóra, 30.3.2008 kl. 12:09
Elsku Eygló
Ég finn mig svo í þínum skrifum, andvaka eins og svo oft áður, er hamingjusöm en líður ansi oft illa í sálinni , svo langþreytt og stundum alveg búin á því.... En þar sem við eigum svo yndisleg börn og góða fjölskyldu þá getum við þetta, enda kraftakonur á ferð hehe
knús og kram
Elísabet
Elísabet Sóley Stefánsdóttir, 31.3.2008 kl. 00:02
Sælt veri fólkið!
Þið þekkið mig ekki og ég ekki ykkur. Eigum þó margt sameiginlegt, ég er t.d. fyrrverandi Árbæingur (frumbyggi), langafi var pólití á Ísafirði í sinni tíð og svo hef ég þurft að kljást við þessa flækju sem er að finna hamingjuna og lífsgleðina innra með mér, þrátt fyrir að líkaminn (og oft ytri aðstæður) sé á allt öðru róli. Undarlegt en satt, þetta er hægt. Eiginlega er ég á því að ég hafi aldrei verið eins hamingjusöm og lífsglöð og ég er núna (ég er nýorðin 50) og er sannfærð um að það tengist því að ég hef aldrei haft eins mikið fyrir því og núna. Einbeitt mér að því sem gott er á hverjum degi og það svínvirkar! Vildi að ég hefði haft eins mikið fyrir þessu á meðan ég hafði heilsuna að fullu, en sýti það ekki.
Megi allar góðar vættir vaka yfir ykkur öllum, því sem heild getið þið tekið hverju sem er.
Kær kveðja,
Auður
Auður Hugrún Jónsdóttir (IP-tala skráð) 4.4.2008 kl. 08:22
Elsku superhetjan mín.
Þú ert svo duglegur það er ekki annað hægt en að dást að þér og þínum ritara og líka öllum hinum.
Haltu áfram að vera duglegur elsku kallinn minn og ég skal segja þér eitt , að ég ætla kveikja á kerti fyrir þig hjá henni Lóu okkar og svo fylgist hún með þér og passar þig.
kv. Villa
Villa Ölvers (IP-tala skráð) 4.4.2008 kl. 09:31
knús knús og kveðjur
Linda Linnet Hilmarsdóttir, 5.4.2008 kl. 19:07
Halló elsku Benjamín og þið öll. Þið eruð stórkostlegar hetjur, öll sem eitt. Það er mjög gefandi að fylgjast með hvernig þú "tæklar" hvern dag með gleði og kátínu, ert algjör fyrirmynd. Þetta ættu þeir sem taka daginn með leiðindum, vanþakklæti og ergelsi að taka til sín.
Hugsum til ykkar elskurnar og krossum fingur. Verðum að fara að kíkja á ykkur við tækifæri, áður en það fjölgar í fjölskyldunni hjá okkur.
Knús og kossar
Margrét og gengið í Rofabænum
Margrét Backman (IP-tala skráð) 9.4.2008 kl. 13:57
Kæra fjölskylda. Ég fylgist með ykkur. Bið alla góða vætti að vera með ykkur og bið hana Lóu mína að fylgist vel með honum Benjamín ofurkappa. Kveiki á Lóu-ljósi fyrir ykkur. Kveðja að vestan.
Halla (IP-tala skráð) 9.4.2008 kl. 20:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.